Innlent

Eld­flaug skotið upp á Langa­nesi í morgun

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Nokkur tilraunaskot til viðbótar verða gerð á Langanesi.
Nokkur tilraunaskot til viðbótar verða gerð á Langanesi. Aðsend/Skyrora

Eldflaug var skotið upp af Langanesi um klukkan tíu í morgun . Atli Þór Fanndal hjá Geimvísinda- og tækniskrifstofunni segir að skotið hafi gengið vel í morgun enda hafi aðstæður verið góðar. „Þetta gekk vel! Það var fallegur dagur á skotstað í dag.“

Eldflauginni, frá skoska fyrirtækinu Skyrora, var skotið upp í tveimur hlutum, eða stigum. Fyrri partur flaugarinnar fór upp í sex kílómetra hæð og þegar hann hætti að brenna fór efri parturinn í 30 kílómetra hæð. „Það er ekki formlega geimurinn, enda ekki geimskot heldur eldflaugaskot,“ segir Atli Þór í samtali við fréttastofu.

Íbúar Langaness fylgjast heillaðir með eldflaugaskotinu.Aðsend/Atli Þór

„Þegar þú ert kominn í 30 km hæð þá sérðu að jörðin er sannarlega hnöttótt. Fyrri hlutinn fellur um það bil 3 km í sjóinn frá ströndinni, efri hlutinn er um það bil 18 km frá ströndu.“

Skrifað var undir samning við björgunarsveitina um að ná í partana aftur og stendur sú aðgerð yfir núna. Hægt er að endurnýta hlutana og verða haldnar nokkrar æfingar til viðbótar. Atli Þór segir Ísland vel til þess fallið að skjóta héðan eldflaugum.

Eldflauginni var skotið upp frá Langanesi í morgun.Aðsend/Atli Þór

„Það eru hundruð þátta sem þarf að skoða: öryggið, veðrátta, staðsetning, samgöngur og leyfi og annað slíkt. Þú þarft alltaf að vega og meta hagsmuni. Langanes hefur nokkra kosti. Ísland býr yfir ótrúlega góðum veðurgögnum, líka góð staðsetning út af ákveðinni braut og staðsetningakerfi hnatta. Svo ertu með svæði sem er tiltölulega strjálbýlt, auðvelt að viðhalda öryggi, stórt flugsvæði og svo framvegis,“ segir Atli.

„Hjá okkur tekur nú við að leyfa okkar teymi að sofa,“ segir Atli.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×