Innlent

Leit að flugeldasérfræðingi í fullt starf stendur yfir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá flugeldasýningu um áramót í Kópavogi.
Frá flugeldasýningu um áramót í Kópavogi. Vísir/Vilhelm

Slysavarnarfélagið Landsbjörg leitar að reynslumiklum einstaklingi til að sjá um innkaup, innflutning og sölu. Um fullt starf er að ræða samkvæmt því sem segir í auglýsingu frá félaginu.

Helstu verkefni starfsmannsins verða að hafa umsjón með lager, framleiðslu, vöruþróun, innkaupum og dreifingu flugelda. Þá á hann að vera tengiliður við einingar félagsins vegna flugelda, sjá um samskipti við innlenda og erlenda birgja auk þess að hafa yfirumsjón með sölumálum félagsins.

Flugeldasérfræðingurinn á að sinna ráðgjöf við kaup á búnaði og aðstoð við einingar félagsins við innkaup. Viðkomandi sinnir innkaupum á vörum og búnaði fyrir félagið og einingar þess auk almennrar skrifstofuvinnu.

Umsóknarfrestur er til 5. febrúar 2020.

Í skoðanakönnun Maskínu fyrir áramót kom fram að 37 prósent landsmanna vilji óbreytt fyrirkomulag með flugeldasölu. Um nokkra fækkun er að ræða frá því ári áður þegar 45 prósent vildu engar breytingar. 32 prósent þeirra sem svöruðu könnuninni á dögunum vilja selja flugelda eingöngu til þeirra sem eru með flugeldasýningar. Nærri fimmtungur vildi setja þak á hvað hver mætti kaupa mikið af flugeldum. Fjölgað hefur í hópi þeirra sem vilja banna flugelda en átta prósent voru þeirrar skoðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×