Innlent

Segja lögreglumennina hafa „dregið verulega úr hraða“ áður en áreksturinn varð

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ökumaðurinn sætir nú síbrotagæslu, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu á Suðurnesjum.
Ökumaðurinn sætir nú síbrotagæslu, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu á Suðurnesjum. Vísir/vilhelm

Ökumaður bíls sem lenti í hörðum árekstri á Sandgerðisvegi á laugardag ók stolinni bifreið. Þá ók hann einnig sviptur ökuréttindum, undir áhrifum fíkniefna og of hratt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu á Suðurnesjum en fram kom í gær að lögregla veitti bílnum eftirför þegar áreksturinn varð.

Í tilkynningu segir einnig að ökumaðurinn sæti nú síbrotagæslu. Þá hafi lögreglumennirnir sem eftirförina veittu „dregið verulega úr hraða“ lögreglubifreiðarinnar áður en slysið varð.

Þrír voru í bílunum tveimur sem lentu í árekstrinum og voru þeir allir fluttir á bráðamóttökuna í Fossvogi. Einn var í bílnum sem veitt var eftirför af lögreglu en tveir í hinum bílnum.  Samkvæmt heimildum Vísis slasaðist annar þeirra sem var í hinum bílnum alvarlega í árekstrinum.

Loka þurfti Sandgerðisvegi í nokkurra klukkutíma vegna slyssins en vitni sem Vísir hefur rætt við segja að hálka hafi verið á veginum og að ökumaður bílsins sem veitt var eftirför af lögreglu hafi ekið á miklum hraða.

Tilkynning lögreglu á Suðurnesjum í heild:

Vegna umferðarslyss sem varð á Sandgerðisvegi þann 18. janúar síðastliðinn  þykir lögreglustjóranum á Suðurnesjum rétt að eftirfarandi komi fram:

Ökumaðurinn sem veitt var eftirför ók stolinni bifreið. Hann var jafnframt grunaður um fíkniefnaakstur og leiddu sýnatökur í ljós að sú var raunin. Þá ók hann sviptur ökuréttindum og gerðist einnig sekur um hraðakstur.

Hann sætir nú síbrotagæslu.

Lögreglumennirnir sem eftirförina veittu höfðu dregið verulega úr hraða lögreglubifreiðarinnar áður en slysið varð.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×