Innlent

Orðrómur um að Ólafur Jóhann vilji í Útvarpshúsið reynist rangur

Jakob Bjarnar skrifar
Ólafur Jóhann tekur af öll tvímæli. Hann er ekki meðal umsækjenda um stöðu útvarpsstjóra.
Ólafur Jóhann tekur af öll tvímæli. Hann er ekki meðal umsækjenda um stöðu útvarpsstjóra.

Þrálátur orðrómur um að Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur og fyrrverandi aðstoðarforstjóri Time Warner fjölmiðlasamsteypunnar væri meðal umsækjenda um stöðu útvarpsstjóra reyndist tilhæfulaus við nánari eftirgrennslan. Vísir taldi sig hafa heimildir fyrir því að Ólafur Jóhann hefði sótt um stöðuna og beindi því til hans fyrirspurn.

„Það væri freistandi að svara þér í véfréttarstíl en ég kann nú bara ekki við það í skammdeginu og skal því taka af allan vafa. Ég sótti ekki um stöðuna. En orðrómurinn er greinilega í gangi,“ segir Ólafur Jóhann í stuttu samtali við Vísi.

Ólafur Jóhann er ekki á leið til Íslands í bráð. „Ég held mig enn mest í New York og þannig verður það á næstunni.  En ég kem samt meira heim en áður.“

Álits umboðsmanns vænst

Eins og greint hefur verið frá ákvað stjórn Ríkisútvarpsins ofh. að halda lista yfir umsækjendur leyndum. Meðan ríkir andrúm getgátna. Vísir kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem úrskurðaði að Ríkisútvarpinu ofh. væri það heimilt að pukrast með listann þó ekkert meinaði stofnuninni í sjálfu sér að upplýsa almenning um hverjir vilji gegna stöðunni.

Margir eru kallaðir en fáir útvaldir. Kristín Þorsteinsdóttir og Svanhildur Hólm eru meðal þeirra fjörutíu sem sóttu um. Svanhildur Konráðsdóttir ekki en um Þóru er ekki vitað.

Með það fyrir augum að auka gegnsæi í samfélaginu vísaði blaðamaður Vísis málinu til umboðsmanns Alþingis sem krafði úrskurðarnefnd um nánari útskýringar á úrskurði sínum; í ítarlegri fyrirspurn til úrskurðarnefndar kemur fram að hann telur vafa leika á um að lögskýringar sem nefndin byggir niðurstöðu sína á fái staðist. Svar hefur borist Umboðsmanni sem er með málið til umfjöllunar og er álits þaðan vænst innan tíðar.

Meðan ríkir leynd um umsækjendur sem eru 41 talsins. Capacent er að vinna úr umsóknum í samráði við stjórn Ríkisútvarpsins ohf. Þar hefur verið vinsað úr umsóknum og reynt að þrengja hringinn. Samkvæmt heimildum Vísis metur stjórn það svo að með þessari leynd sem ríkir um umsækjendur hafi fengist í það minnsta þrír umsækjendur sem öðrum kosti hefðu ekki gefið kost á sér. Stjórnin ákvað á sínum tíma að framlengja umsóknarfrest um viku, en Páll Magnússon alþingismaður og útvarpsmaður hefur gert athugasemd við það og telur að það gæti orsakað vanhæfi stjórnarmanna til að fjalla um umsóknirnar.

Ekki næst í Þóru

Vitað er um nokkra sem sóttu um svo sem þau Svanhildi Hólm aðstoðarmann Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins, Kristínu Þorsteinsdóttur fyrrverandi aðalritstjóra hjá 365, Herdísi Þorgeirsdóttur lagaprófessor og fyrrverandi forsetaframbjóðanda og Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur leikkonu og fyrrverandi ritstjóra Kvennablaðsins.

Ein hefur verið nefnd sem líklegur kandídat; Þóra Arnórsdóttir fyrrverandi ritstjóri Kveiks og forsetaframbjóðandi en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Vísis hefur ekki gengið að ná af henni tali til að inna hana eftir því hvort hún sé meðal umsækjenda.


Tengdar fréttir

Lilja vill svör um pukur Ríkisútvarpsins

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur sent stjórn Ríkisútvarpsins bréf þar sem hún óskar eftir skýringum á því hvers vegna listi yfir umsækjendur útvarpsstjóra verður ekki birtur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×