Innlent

Landsbjörg fær hálfa milljón til að standsetja björgunarskip sem verður á Flateyri

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Stefnt er að því að skipið verði staðsett á Flateyri í vetur.
Stefnt er að því að skipið verði staðsett á Flateyri í vetur. Vísir/Egill

Forsætisráðherra hefur ákveðið að verða við ósk Slysavarnafélagsins Landsbjargar um að styrkja félagið um hálfa milljón króna, til að standsetja björgunarskip sem staðsett er á Rifi á Snæfellsnesi. Skipinu verði svo siglt til Flateyrar þar sem það verður í höfn í vetur.

Að því er fram kemur í tilkynningu frá stjórnarráðinu er verkefnið til komið vegna þeirrar stöðu sem uppi er eftir snjóflóðin sem féllu á Flateyri í síðustu viku. Þar er enginn bátur lengur til staðar að jafnaði sem hægt er að nota sem örugga flóttaleið ef til þess kæmi að þjóðvegurinn lokaðist. Ákvörðunin er tekin samhliða stofnun starfshóps um aðgerðir til að treysta atvinnulíf og búsetu á Flateyri sem Vísir greindi frá fyrr í dag.

„Slysavarnarfélagið Landsbjörg hefur þegar hafið undirbúning verkefnisins í samvinnu við björgunarsveitina Sæbjörgu á Flateyri og reiknað er með að skipið geti verið komið að höfn á Flateyri um miðja næstu viku,“ segir í tilkynningu forsætisráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×