Innlent

Djúp lægð á Græn­lands­hafi veldur stormi í dag og fleiri lægðir í næstu viku

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Víða verður skyggni takmarkða og akstursskilyrði erfið. Myndin er úr safni.
Víða verður skyggni takmarkða og akstursskilyrði erfið. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Búast má við austanhvassviðri eða stormi á landinu í dag með slyddu eða snjókomu í flestum landshlutum en rigningu syðst. Orsök stormsins er djúp lægð á Grænlandshafi, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Seinni partinn lægir þó smám saman og rofar til, fyrst sunnan til á landinu. Gular hríðarviðvaranir eru í gildi á Vestfjörðum og Breiðafirði fram á kvöld og ferðalangar beðnir að kanna þær áður en lagt er af stað.

Þar er búist við austan- og norðaustan 15-25 m/s með snjókomu og skafrenningi. Skyggni verður takmarkað og akstursskilyrði erfið, að því er segir á vef Veðurstofunnar.

Tvær smálægðir sækja svo að landinu á morgun og valda breytilegum vindáttum, þó líklega fremur hægum. Úrkoma verður varla mikil en kólnar smám saman.

„Fleiri lægðir koma við sögu í næstu viku, en fara líklega flestar austur fyrir land, þ.a. norðanáttir verða tíðari,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Þegar þetta er ritað er enn beðið eftir upplýsingum um færð vega víða á landinu en vetrarfærð er nær alls staðar og nokkuð hvasst. Mikill vindur er á Snæfellsnesi og í Borgarfirði, þæfingsfærð á Svínadal en ófært um Bröttubrekku.

Mjög hvasst er núna á Vestfjörðum en þæfingsfærð er einnig milli Patreksfjarðar og Bíldudals. Ófært er um Klettsháls.

Þungfært er um Öxnadalsheiði og éljagangur í Eyjafirði. Ófært er um Hófaskarð og hálsa. Þá er veginum um Fróðárheiði lokað vegna veðurs. Töluvert hvasst er austan Hafnar og þæfingsfærð á Biskupstungnabraut og um Reynisfjall. Upplýsingar um færð vega má nálgast á vef Vegagerðarinnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.