Innlent

Innbrot í heimahús, verslun og skóla

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögreglunni barst einnig tilkynning um eld í rusli við hús en greiðlega gekk að slökkva hann.
Lögreglunni barst einnig tilkynning um eld í rusli við hús en greiðlega gekk að slökkva hann. Vísir/Vilhelm

Lögreglu á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um nokkur innbrot í gærkvöldi- og í nótt, að því er fram kemur í dagbók lögreglu. Seint á níunda tímanum í gær var tilkynnt um innbrot og þjófnað á heimili í Kópavogi. Farið hafði verið inn á heimilið og verðmætum stolið.

Svo var tilkynnt um innbrot og þjófnað í fyrirtæki eða verslun í Hlíðunum á þriðja tímanum í nótt. Ekkert er frekar skráð um málið í dagbók lögreglu.

Tilkynnt var um hið sama í Breiðholti á fjórða tímanum. Þar hafði verið brotist inn í skóla en ekkert frekar skráð.

Þá hafði lögregla á öðrum tímanum í nótt afskipti af ölvuðum manni við veitingahús í miðbænum. Maðurinn er grunaður um brot á lögreglusamþykkt, eignaspjöll og fór auk þess ekki að fyrirmælum lögreglu, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu. Maðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöð en laus að loknum viðræðum.

Þá fóru lögregla og slökkvilið á vettvang eldsvoða að Eyjaslóð úti á Granda í Reykjavík á öðrum tímanum. Þar var tilkynnt um eld í fiskikörum og gámi en ekki eru veittar frekari upplýsingar um málið í dagbók lögreglu.

Um svipað leyti var tilkynnt um umferðaróhapp á Laugavegi í póstnúmeri 105. Þar var ekið á vegrið en ekki urðu meiðsl á fólki.

Lögregla hafði afskipti af ofurölvi manni við Grensásveg um kvöldmatarleytið. Í dagbók lögreglu segir að maðurinn hafi verið ósjálfbjarga og ekki getað gert grein fyrir sér. Hann var handtekinn og vistaður sökum ástands í fangageymslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×