Innlent

Unnið eftir áætlun sem gerir ráð fyrir að atvinnulíf skerðist og dánartíðni hækki

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Heilbrigðisstarfsmaður hlúir að sjúklingi á sjúkrahúsi í Wuhan, þar sem hin samnefnda veira á upptök sín.
Heilbrigðisstarfsmaður hlúir að sjúklingi á sjúkrahúsi í Wuhan, þar sem hin samnefnda veira á upptök sín. Vísir/EPA

Ákvörðun hefur verið tekin hér á landi um að vinna eftir landsáætlun fyrir heimsfaraldur inflúensu í tengslum við kórónaveiruna. Þetta var ákveðið á fundi Sóttvarnarlæknis og almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra.

Frá þessu er greint í stöðuskýrslu almannavarnadeildarinnar vegna kórónaveikinnar. Þar segir að í landsáætlunni sé gert ráð fyrir að „atvinnulíf í landinu skerðist í ákveðinn tíma, hluti þjóðarinnar verði rúmfastur vegna veikinda og dánartíðni verði umfram það sem búast má við í venjulegi árferði.“

Ekkert tilfelli kórónaveiru hefur komið upp hér á landi en alls hafa 132 látist vegna sýkingar af völdum veirunnar. Rúmlega sex þúsund hafa veikst í sautján ríkjum, langflest í Kína

Kemur fram að viðbrögð stjórnvalda hér á landi beinist að því að hindra sem mest komu veirunnar og útbreiðslu innanlands, að heilbrigðisþjónusta verði tryggð fyrir veika einstaklinga og nauðsynlegri starfsemi verði viðhaldið innanlands.

Þá kemur einnig fram að rætt hafi verið um áhrif þess að loka landinu fyrir flug- og skipaumferð. Áætlað er að faraldurinn gangi yfir á 2-3 mánuðum og gæti lokun landsins hugsanlega staðið yfir í hálft ár. Ekki er þó talið raunhæft að grípa til slíkra aðgerða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×