Innlent

Engar vísbendingar um að kvika sé komin nálægt yfirborði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Myndin er af GPS mælastöð Jarðvísindastofnunar HÍ, sem nú skilar gögnum í rauntíma til Veðurstofunnar.
Myndin er af GPS mælastöð Jarðvísindastofnunar HÍ, sem nú skilar gögnum í rauntíma til Veðurstofunnar. Veðurstofa Íslands

Mælingar sérfræðinga á Veðurstofu Íslands á svæðinu umhverfis fjallið Þorbjörn nærri Grindavík gefa engar vísbendingar um að kvika sé komin nálægt yfirborði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Með auknu eftirliti berist fleiri gögn í hús sem gefi skýrari mynd af þróun mála við Þorbjörn.

„Ný gögn sýna áframhaldandi landris á svæðinu vestan við Þorbjörn. Erfitt er að túlka breytingar út frá einstaka mælipunktum, en með því að skoða meðaltal þéttari mælinga, sem nú berast í hús, er greinilegt að landrisið er enn í gangi.“

Þar sem um sé að ræða langtíma atburð þurfi að fylgjast vel með svæðinu og mælingunum þar til lengri tíma, til að átta sig betur á heildarferli jarðhræringanna.

Sérfræðingar Veðurstofunnar hafi í dag unnið að gasmælingum á svæðinu umhverfis Þorbjörn í samvinnu við starfsmenn HS-orku. Þær mælingar gefi engar vísbendingar um að kvika sé komin nálægt yfirborði.

Það styðja einnig vatnssýni sem HS-orka tók, en slíkt er gert tvisvar á viku.

Nánar má fylgjast með skjálftavirkni og þróun mála á vef Veðurstofunnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.