Erlent

Aftengdu tvær sprengjur úr seinna stríði

Andri Eysteinsson skrifar
Götum að svæðinu var lokað með því að stafla upp gámum.
Götum að svæðinu var lokað með því að stafla upp gámum. AP/Henning Kaiser

Það varð uppi fótur og fit í þýsku borginni Dortmund í dag þegar bárust af því fréttir að tvær virkar sprengjur úr seinni heimsstyrjöldinni, ein amerísk og önnur bresk, höfðu fundist. AP greinir frá.

Sprengjurnar voru hvor um sig 250 kíló að þyngd en í fyrstu var talið að um fjórar sprengjur væri að ræða. Yfirvöld í borginni létu rýma tvö sjúkrahús í nágrenni sprengjanna og allt að 14.000 voru beðin um að yfirgefa heimili sín á meðan að unnið var að því að aftengja sprengjurnar tvær.

Lestarstöðvum var einnig lokað og urðu því talsverðar samgöngutruflanir. Sprengjufundurinn í dag er langt frá því að vera einsdæmi því reglulega finnast virkar sprengjur úr seinni heimsstyrjöldinni í borgum Þýskalands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×