Innlent

Hafa áhyggjur af pennum með ofskynjunarlyfi sem eru nýjung á fíkniefnamarkaði

Nadine Guðrún Yaghi skrifar

Svokallaðir DMT pennar sem innihalda ofskynjunarlyf eru nýjung á íslenskum fíkniefnamarkaði og ganga kaupum og sölum á netinu. Lögreglan hefur miklar áhyggjur af þróuninni. Um sé að ræða hættulegt eiturlyf sem geti valdið langvarandi heilsutapi.

DMT er sterkt ofskynjunarlyf sem svipar til LSD og ofskynjunarsveppa. Annars vegar er hægt að vinna efnið úr plöntum eða búa það til. Upp á síðkastið hefur borið á efninu til sölu á samskiptaappi þar sem fíkniefni ganga kaupum og sölu. Svokallaðir DMT pennar, sem minna á rafrettur, eru þar til sölu.

„Það er auðvitað alltaf áhyggjuefni þegar það koma inn tilkynningar eða grunur um að ný efni séu að koma á fíkniefnamarkað,“ segir Þórir Ingvarsson, lögreglufulltrúi.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur fengið ábendingar um að DMT gangi nú kaupum og sölu í Reykjavík.

„Það sem við óttumst kannski helst er það að þegar það kemur inn eitthvað nýtt er það látið líta út fyrir að vera eitthvað hættuminna eða eitthvað annað en það raunverulega er. En auðvitað er þarna bara um hættuleg fíkniefni að ræða,“ segir Þórir.

Hann segir að lögregla reyni alltaf að fylgjast vel með sölu fíkniefna á netinu og muni fylgjast grannt með þróun neyslu efnisins.

Eins og nafnið gefur til kynna kallar neysla þess fram kröftug ofskynjunaráhrif.

„Við höfum miklar áhyggjur af þessu,“ segir Þórir. „Þetta er ekki lyf, þetta er eiturlyf og þetta er í raun skylt LSD og er ofskynjunarlyf og er mjög hættulegt og getur í raun og veru valdið langvarandi heilsutapi fyrir þá sem gætu neytt þess. Svo má ekki gleyma því að allt er þetta ólöglegur varningur og getur í raun og veru innihaldið allt á milli himins og jarðar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×