Erlent

Slagorð krotuð á Litlu hafmeyjuna í Kaupmannahöfn

Kjartan Kjartansson skrifar
Krotað var á steininn sem styttan af Litlu hafmeyjunni situr á í skjóli nætur.
Krotað var á steininn sem styttan af Litlu hafmeyjunni situr á í skjóli nætur. AP/Thomas Sjørup

Óþekktir skemmdarvargar krotuðu slagorð til stuðnings mótmælendum í Hong Kong á styttuna af Litlu hafmeyjunni í Kaupmannahöfn í nótt. Fleiri en milljón ferðamanna ber styttuna augum á ári hverju en hún er sögð sérstaklega vinsæl hjá kínverskum ferðalöngum.

„Frjáls Hong Kong“ hafði verið krotað á tveimur stöðum á steininn sem hafmeyjan situr á með rauðri og hvítri málningu í morgun. AP-fréttastofan segir að lögregla með leitarhund hafi leitað að vísbendingum um sökudólgana snemma í morgun en enginn hafi verið handtekinn til þessa.

Fjölmenn mótmæli hafa staðið yfir í Hong Kong um fleiri mánaða skeið. Mótmælendur þar krefjast lýðræðis og andæfa kínverskum yfirráðum. Reuters-fréttastofan segir að Litla hafmeyjan sér sérstaklega vinsæll viðkomustaður Kínverja sem heimsækja Kaupmannahöfn.

Styttan af Litlu hafmeyjunni er tileinkuð skáldinu H.C. Andersen og hefur ítrekað orðið fyrir skemmdarverkum í gegnum tíðina. Hún hefur þannig verið sprengd af stalli sínum, afhöfðuð og verið útmáluð í veggjakroti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×