Fótbolti

Valverde rekinn frá Barcelona og Setién tekur við

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þrátt fyrir gott gengi var Velvarde ekki vinsæll hjá stuðningsmönnum Barcelona.
Þrátt fyrir gott gengi var Velvarde ekki vinsæll hjá stuðningsmönnum Barcelona. vísir/getty

Ernesto Valverde hefur verið látinn taka pokann sinn sem knattspyrnustjóri Barcelona.

Við starfi hans tekur Quique Setién. Hann skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning við Barcelona.

Valverde tók við Barcelona 2017 og gerði liðið tvisvar að Spánarmeisturum og einu sinni að bikarmeisturum.

Barcelona féll hins vegar í tvígang á ótrúlegan hátt úr leik úr Meistaradeild Evrópu undir stjórn Valverdes. Hann skilur við Barcelona á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar.

Setién var síðast við stjórnvölinn hjá Real Betis. Hann stýrði liðinu á árunum 2017-19. Þar áður var hann stjóri Las Palmas.

Setién, sem er 61 árs, hefur aldrei unnið neitt á stjóraferlinum en lið hans eru þekkt fyrir að spila skemmtilegan fótbolta.

Hann stýrir Barcelona í fyrsta sinn gegn Granada á sunnudaginn.

Setién fær sitt stærsta tækifæri á stjóraferlinum.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×