Innlent

Komst út um gluggann eftir að strætó endaði í Tjörninni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Strætó úti í Tjörn. Hljómskálinn í bakgrunni.
Strætó úti í Tjörn. Hljómskálinn í bakgrunni.

Enginn farþegi var um borð þegar leið tólf hjá strætó hafnaði hálfur úti í Reykjavíkurtjörn undir miðnætti í nótt. Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segir bílstjórann hafa verið einan í vagninum enda vaktinni að ljúka.

Strætisvagninn var rétt ókominn að brúnni yfir Tjörnina á Skothúsvegi þegar vagninn fékk á sig vindhviðu. Afar hált var á veginum og afleiðingarnar þær að vagninn hafnaði úti í Tjörninni.

Guðmundur Heiðar segir vagnstjóra hafa prílað út um gluggann bílstjóramegin enda hafi hurðin verið hálf úti í Tjörn. Hann hafi verið ómeiddur og kallað eftir aðstoð frá Kynnisferðum sem gerir út vagninn í verktöku hjá Strætó. Um helmingur leiða Strætó á höfuðborgarsvæðinu eru í verktöku.

Óvíst er um skemmdir á vagninum en hann er í skoðun. Guðmundur Heiðar telur tjón líklega ekki stórkostlegt en eitthvað gæti verið um skemmdir undir vagninum og á horninu sem hafnaði úti í tjörn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.