Innlent

„Eðli­legast í heimi“ að skiptar skoðanir séu um mið­há­lendis­þjóð­garð

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar

Það er vel hægt að láta stofnun hálendisþjóðgarðs og tryggingu raforkuöryggis fara saman segir þingmaður Vinstri grænna. Útlit er fyrir að deilt verði um frumvarp umhverfisráðherra um stofnun miðhálendisþjóðgarðs á vorþingi en umsagnarfrestur um málið rennur út á morgun.

Umhverfisráðherra hyggst leggja frumvarpið fram í febrúar eða mars en hann hefur verið á ferð um landið upp á síðkastið þar sem hann kynnir áformin. Sveitarfélög hafa mörg lýst áhyggjum af því að áformin kunni að fela í sér valdatilfærslu frá sveitarfélögum til ríkisins.

Menn geta kallað þetta öllum nöfnum. Það er verið að breyta fyrirkomulagi. Aðkoma sveitarfélaganna, að mínu viti, er sérstaklega hugað að henni. Að sjálfsögðu hlustum við á og við í nefndinni munum fá fulltrúa til okkar til að útskýra sín sjónarmið,“ segir Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna.

Hann segist ekki hafa áhyggjur af framgangi málsins á Alþingi.

Mér finnst eðlilegasti hlutur í heimi að um jafn víðfeðmt mál séu skiptar skoðanir. Það er búið að berjast fyrir þjóðgarði á hálendinu árum saman, áratugum hjá sumum. Fyrir mér er þetta stór stund að ná svo langt með þetta mál.

Nokkrir þingmenn hafa lýst efasemdum um áformin, þeirra á meðal úr röðum annarra stjórnarflokka.

Eðlilega tekur hefðbundin þingleg meðferð við núna. Við í umhverfis- og samgöngunefnd fáum gesti og vinnum þetta mál vel og vandlega. Ég sé ekki annað en að við getum klárað þetta mál í góðri sátt núna á vorþinginu.

Það kveður við nokkuð annan tón hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Ég sem sveitastjórnarráðherra mun auðvitað horfa á þær ályktanir á sveitastjórnarstigi sem segja „Heyrðu þetta er nú bara þannig að við viljum hafa þetta skipulagsvald hjá okkur, Við höfum verið að fara með þessi mál um aldir og þetta hefur gengið býsna vel.“ Er þetta nauðsynlegt skref. Ég held við þurfum að staldra við.“ Sagði Sigurður Ingi Jóhannsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×