Innlent

Nafn mannsins sem leitað er á Snæfellesnesi

Jóhann K. Jóhannsson og Tryggvi Páll Tryggvason skrifa
Andris Kalvans, göngumaðurinn sem er saknað á Snæfellsnesi.
Andris Kalvans, göngumaðurinn sem er saknað á Snæfellsnesi.

Leit að Andris Kalvans, Lettanum sem týndur hefur verið frá því á mánudag verður haldið áfram í dag. Hann er vanur fjallgöngumaður en leitarmenn hafa litlar sem engar vísbendingar um ferðir hans. Lögregla biðlar til þeirra sem kunni að hafa upplýsingar um ferðir hans að hafa samband við lögreglu.

Bíll mannsins fannst í vegkanti á milli bæjanna Heggstaða og Mýrdals á Snæfellsnesi. Ráðist var í umfangsmikla leit á mánudag og þriðjudag við Heydalsveg, í átt að Hrútaborg, á Haffjarðardal, Kaldadal, Kolbeinsstaðafjalli og í Eldborgahrauni. Ekki var leitað í gær, nýársdag.

Leitin bar hins vegar ekki árangur en á milli tíu til tuttugu björgunarsveitarmenn munu halda áfram leit í dag.

„Það fara tíu til tuttugu manns á fjall í dag til að fylgja eftir vísbendingum frá sporhundunum. Svo er stefnt að meiri leit á morgun,“ segir Jón Sigurður Ólafsson, yfirlögregluþjónn, í samtali við Vísi.

Litlar upplýsingar eru fyrir hendi um ferðir mannsins.

„Þær eru frekar takmarkaðar. Það liggur ekki fyrir hvert maðurinn fór eða hvert hann stefndi. Hann virðist ekki hafa skilið eftir neina ferðaáætlun þannig að það er á litlu að byggja,“ segir Jón Sigurður sem biðlar til þeirra sem kunni að hafa upplýsingar um ferðir mannsins að hafa samband við lögreglu.

Maðurinn heitir sem fyrr segir Andris Kalvans. Er hann frá Lettlandi en búsettur hér á landi. Hann er vanur fjallgöngumaður og talið er líklegast að hann hafi farið í fjallgöngu.

Veður á leitarsvæðinu er að sögn Jóns Sigurðar frekar leiðinlegt en útlitið er skárra á morgun. Þá verður einnig skoðað hvort óskað verði eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar við leitina en hún flaug yfir í fyrradag í von um að finna merki frá síma Kalvans, án árangurs.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×