Erlent

Konungs­fjöl­skyldan sögð sár og von­svikin vegna á­kvörðunar Meg­han og Harry

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Elísabet II Englandsdrottning, Meghan og Harry og Vilhjálmur og Katrín á góðri stund. Það er spurning hvort allt leiki í jafnmiklu lyndi nú.
Elísabet II Englandsdrottning, Meghan og Harry og Vilhjálmur og Katrín á góðri stund. Það er spurning hvort allt leiki í jafnmiklu lyndi nú. vísir/ap

Svo virðist sem hertogahjónin af Sussex, Harry og Meghan, hafi hvorki ráðfært sig við neinn í konungsfjölskyldunni né látið neinn vita af þeir ákvörðun sinni um að draga sig í hlé frá embættisskyldum sínum og fara úr framlínu fjölskyldunnar.

Þannig létu þau hvorki Elísabetu II Englandsdrottningu, ömmu Harry, vita né Vilhjálm Bretaprins, bróður Harry, vita af því að þetta stæði til.

Frá þessu er greint á vef BBC þar sem segir að meðlimir konungsfjölskyldunnar séu vonsviknir og sárir vegna ákvörðunarinnar.

Talsmaður Buckingham-hallar sagði í kvöld að viðræður við hjónin um að þau myndu draga sig í hlé væru á byrjunarstigi.

„Við skiljum að þau vilja gera aðra hluti en þetta eru flóknir hlutir sem tekur tíma að vinna úr,“ sagði talsmaður hallarinnar.

Harry og Meghan hafa undanfarið átt í miklum deilum við fjölmiðla vegna þess sem þau vilja að meina að sé óvægin umfjöllun í þeirra garð og þá ekki hvað síst gagnvart hertogaynjunni.

Þannig höfðaði Meghan mál gegn Mail on Sunday eftir að blaðið birti handskrifað bréf sem hún hafði skrifað föður sínum, en þau feðgin talast ekki við.

Á sama tíma birti Harry yfirlýsingu þar sem hann sagði fjölmiðla leggja eiginkonu sína í einelti og líkti hegðuninni við það hvernig komið var fram við móður hans heitna, Díönu prinsessu.

Þá vakti heimildarmynd um hjónin sem sýnd var í bresku sjónvarpi í október síðastliðnum mikla athygli. Þar opnuðu þau sig í viðtali og var til að mynda augljóst að það fékk á Meghan að ræða það hvaða áhrif hin mikla fjölmiðlaathygli hefur haft á hana eftir að hún eignaðist son sinn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.