Innlent

Reykjanesbær laus undan sérstöku eftirliti

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fjármál Reykjanesbæjar virðast á uppleið samkvæmt niðurstöðu eftirlitsnefndarinnar.
Fjármál Reykjanesbæjar virðast á uppleið samkvæmt niðurstöðu eftirlitsnefndarinnar. Vísir/Vilhelm

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur tilkynnt Reykjanesbæ að aðlögunaráætlun bæjarins hvað varðar fjárhagsmál sé fallin úr gildi og bæjarstjórn sé ekki lengur skylt að bera ákvarðanir undir nefndina. Þetta kemur fram á heimasíðu bæjarins og er vísað í bréf sem nefndin sendi bænum.

Reykjanesbær hafði áætlað að þetta gerðist eftir tvö ár, en styrk fjármálastjórn, aðhaldsaðgerðir og tekjuaukning bæjarsjóðs, hafa nú gert það að verkum að aðgerðaráætlunin „Sóknin“, sem sett var af stað í árslok 2014, til að rétta við fjárhag bæjarfélagsins, hefur skilað árangri á undan áætlun.

„Fyrir okkur öll í Reykjanesbæ eru þetta sérstaklega ánægjuleg tíðindi og niðurstaða sem við höfum stefnt að síðan í árslok 2014. Auk þess sem ráðdeild hefur stýrt störfum okkar, hafa ytri aðstæður einnig hjálpað til. Má þar nefna að flugumferð um Keflavíkurflugvöll hefur aukist, atvinnustig verið gott, íbúum fjölgað og svo mætti áfram telja,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

Niðurstaða eftirlitsnefndar þýði í raun að nú er bæjaryfirvöldum frjálst að stýra fjármálum sveitarfélagsins án sérstaks samráðs við eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga svo fremi sem áætlanir standist og viðmið og ákvæði í fjármálareglum sveitarstjórnarlag verði áfram uppfyllt.

Bæjarstjórn mun nú í framhaldinu leggjast yfir framtíðaráætlanir bæjarfélagsins, en fjölmörg stór verkefni eru á teikniborðinu í uppbyggingu skóla- og íþróttamannvirkja, ýmissa fjárfestinga og framkvæmda.

„Það er því bjartara framundan fyrir íbúa Reykjanesbæjar sem hafa mátt þola hærri álögur undanfarin ár vegna erfiðrar stöðu bæjarins. Um leið og bæjaryfirvöld fagna þessum merka áfanga eru íbúum og starfsmönnum Reykjanesbæjar færðar bestu þakkir fyrir gott samstarf sem nú hefur skilað góðum árangri.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×