Erlent

Segir tölur eigin ríkisstjórnar um skógarelda vera lygar

Samúel Karl Ólason skrifar
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu.
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu. AP/Eraldo Peres

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hefur brugðist reiður við fregnum um fjölmargar skógarelda á Amasonsvæðinu og segir þær vera „lygar“. Jafnvel þó fregnirnar byggi að miklu leiti á opinberum gögnum hans eigin ríkisstjórnar, sem segja þúsundir skógarelda loga í landinu.

Þar að auki er Bolsonaro sjálfur sagður hafa sent hermenn á svæðið til að berjast gegn skógareldum.

Bolsonaro beitti svipuðum aðferðum í fyrra og þvertók fyrir að skógareldar væru vandamál. Það leiddi til deilna á milli hans og Emmanuel Macron, forseta Frakklands, og annarra þjóðarleiðtoga.

Í ágúst í fyrra höfðu skógareldar ekki verið verri í landinu í níu ár. Samkvæmt frétt Reuters er útlitið verra nú í ár. Rúmlega tíu þúsund eldar voru skráðir á fyrstu tíu dögum mánaðarins og er það 17 prósentum hærra en í fyrra, samkvæmt tölum frá Geimvísindastofnun Brasilíu, IPNE.

Vitni á svæðinu sagði reyk þekja himininn á daginn og að eldarnir lýstu upp næturnar. Sérfræðingar segja þessa elda kveikta til að búa til meira ræktarland.

Í ræðu sem Bolsonaro hélt fyrir framan aðra þjóðarleiðtoga Suður-Ameríku á fundi samtaka ríkja um vernd Amasonskógarins, í dag sagði forsetinn að þetta væri allt ósatt. Ef maður flygi yfir frumskóginn væri ekki einn eldur sýnilegur.

Í fyrra, þegar opinberar tölur IPNE fóru gegn ummælum Bolsonaro, rak hann yfirmann stofnunarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×