Erlent

Segir tölur eigin ríkisstjórnar um skógarelda vera lygar

Samúel Karl Ólason skrifar
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu.
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu. AP/Eraldo Peres

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hefur brugðist reiður við fregnum um fjölmargar skógarelda á Amasonsvæðinu og segir þær vera „lygar“. Jafnvel þó fregnirnar byggi að miklu leiti á opinberum gögnum hans eigin ríkisstjórnar, sem segja þúsundir skógarelda loga í landinu.

Þar að auki er Bolsonaro sjálfur sagður hafa sent hermenn á svæðið til að berjast gegn skógareldum.

Bolsonaro beitti svipuðum aðferðum í fyrra og þvertók fyrir að skógareldar væru vandamál. Það leiddi til deilna á milli hans og Emmanuel Macron, forseta Frakklands, og annarra þjóðarleiðtoga.

Í ágúst í fyrra höfðu skógareldar ekki verið verri í landinu í níu ár. Samkvæmt frétt Reuters er útlitið verra nú í ár. Rúmlega tíu þúsund eldar voru skráðir á fyrstu tíu dögum mánaðarins og er það 17 prósentum hærra en í fyrra, samkvæmt tölum frá Geimvísindastofnun Brasilíu, IPNE.

Vitni á svæðinu sagði reyk þekja himininn á daginn og að eldarnir lýstu upp næturnar. Sérfræðingar segja þessa elda kveikta til að búa til meira ræktarland.

Í ræðu sem Bolsonaro hélt fyrir framan aðra þjóðarleiðtoga Suður-Ameríku á fundi samtaka ríkja um vernd Amasonskógarins, í dag sagði forsetinn að þetta væri allt ósatt. Ef maður flygi yfir frumskóginn væri ekki einn eldur sýnilegur.

Í fyrra, þegar opinberar tölur IPNE fóru gegn ummælum Bolsonaro, rak hann yfirmann stofnunarinnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.