Innlent

Rannsaka langvarandi afleiðingar af Covid-19

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Landspítalinn og Háskóli Íslands rannsaka nú líðan og einkenni þeirra sem hafa fengið Covid-19 hér á landi og sendu hátt í tvö þúsund manns sem veiktust af Covid 19 fyrstu fjóra mánuði ársins spurningalista. Helga Jónsdóttir prófessor á heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands segir að um helmingur sé búinn að svara en afar mikilvægt sé að allir svari.

„Fólk hefur svarað geysilega vel. Það eru nokkrar opnar spurningar og það er gífurlega margt sem fólk er að glíma við. Það voru magir sem sögðu frá því að hafa liðið illa löngu eftir að hafa læknast af sýkingunni en afleiðingarnar af henni séu margvíslegar,“ segir Helga. 

Helga segir að erlendar rannsóknir hafi sýnt fram á að allt að einn af hverjum fjórum stríði við langvarandi veikindi af alls konar toga eftir að hafa fengið Covid. Ekki sé ólíklegt að staðan sé svipuð hér.

„Það er ekki ósennilegt að staðan sé svipuð hér en ennþá er of snemmt að segja til um það. Það er afar mikilvægt að fleiri svari svo við fáum sem áreiðanlegastar upplýsingar,“ segir Helga.  

Hún býst við að hægt verði að greina frá niðurstöðum rannsóknarinnar í september og vonar að verði hægt að finna úrræði fyrir þann hóp sem glími enn við afleiðingar af vírusnum. 

Við höfum reynslu af því að setja upp alls konar þjónustu fyrir fólk og þróa hana og svo sannarlega hefðum við áhuga á að setja slíkt upp ef áhugi er fyrir hendi,“ segir Helga. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×