Innlent

Til greina komi að herða tökin á landamærunum

Birgir Olgeirsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Forsætisráðherra segir koma til greina að herða tökin á landamærunum. Engin ein leið muni þó koma í veg fyrir að veiran berist hingað til lands. Ráðherra hefur lagt höfuðáherslu á að halda skólum, íþróttum, frístundum og menningarlífi sem mest gangandi.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að frá upphafi kórónuveirufaraldursins hafi stjórnvöld unnið að sínum aðgerðum mjög þétt með sérfræðingum.

„Þar voru tvö leiðarljós, sóttvarna- og heilbrigðissjónarmið og hins vegar að tryggja að halda samfélaginu sem mest gangandi. Kórónuveirufaraldurinn er í vexti í heiminum í dag, því höfum við lagt höfuðáherslu á að við getum haldið samfélaginu sem mest gangandi. Ég hef átt fundi með sóttvarnayfirvöldum þar sem ég hef lagt áherslu á skólastarf, íþróttastarf, frístundastarf, menningarstarf. Það þýðir að við þurfum að skoða hvernig við getum best búið að málum þannig að það geti gengið eftir,“ segir Katrín.

Hún segir landamærin koma þar til skoðunar og sóttvarnayfirvöld séu í þeirri vinnu að stilla upp þeim valkostum sem í boði eru.

„Ég á von á við fáum slíkt yfirlit vonandi á morgun og þá getum við lagt mat á næstu skref,“ segir Katrín.

Þannig að þetta er ekki einfalt val, þú getur ekki sagt hvort þú vilt herða tökin á landamærunum eða ekki?

„Ég hef sagt að það komi til greina að herða tökin á landamærunum til að draga úr áhættu innanlands. Það er engin ein leið í því, það eru nokkrir valkostir um það hvernig er hægt að gera það. Hins vegar hefur sóttvarnalæknir sagt að í raun sé ekki hægt að koma í 100 prósent í veg fyrir að veiran komi til landsins. Það sé aldrei neinn valkostur í boði þar sem við getum algjörlega sleppt okkar einstaklingsbundnu sóttvörnum.“

Kári vill herða tökin til að bjarga skóla- og menningarstarfi

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði í gær að stjórnmálamenn stæðu frammi fyrir tveimur valkostum. Annað hvort að halda fyrirkomulagi landamæraskimunarinnar óbreyttu og búa við hópsýkingar þar til bóluefni kemur á markað, eða að herða tökin á landamærunum og takast á við hrun í ferðaþjónustu. Kári sagði svarið einfalt ef að tryggja ætti að skólar og menningarlíf haldist með eðlilegum hætti, herða yrði tökin á landamærunum.

Í ljósi þess að Katrín hefur lagt höfuðáherslu á að skólastarf, íþróttastarf, frístundastarf og menningarstarf haldist gangandi, blasir þá ekki svarið við miðað við orð Kára?

„Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur sýnt okkur að hlutirnir eru ekki svarthvítir og eins og ég sagði á áðan þá er enginn valkostur sem býður upp á að við séum 100 prósent viss um að þurfa ekki að takast á við veiruna innanlands. En, við höfum lagt á það áherslu annars vegar að vera alltaf með heilbrigðis- og sóttvarnasjónarmið sem okkar fyrsta mál, og hins vegar að geta haldið samfélaginu gangandi. Þar skipta skólarnir, íþróttalífið og menningarlífið miklu máli. Þetta er hluti af því að halda samfélaginu gangandi.“

Uppfæra hagrænu greininguna

Forstjóri íslenskrar erfðagreiningar og sóttvarnalæknir kölluðu báðir eftir að unnin yrði hagræn greining á landamæraskimuninni. Katrín segir að áður en ráðist var í landamæraskimunina 15. júní hafi verið unnin hagrænan greining þar sem ábati og kostnaður landamæraskimunarinnar var áætlaður.

Nú þegar reynsla er komin á landamæraskimunina er verið að uppfæra þessa hagrænu greiningu.

„Nú er verið að fara yfir hvað gekk eftir og hvað ekki. Það er líka til skoðunar að kalla til utanaðkomandi aðila til að greina þessi hagrænu áhrif þannig að við fáum þetta samtal sem er svo mikilvægt. Við þurfum að halda þessari umræðu lifandi því þetta er ekki einföld spurning. Þarna takast á flóknir hagsmunir. En síðan er það líka hluti af okkar sjálfsmynd að greiða fyrir samgöngum um landamæri. Það er hluti af því sem við getum kallað eðlilegt samfélag. Það hefur líka verið hluti af þessari umræðu frá upphafi sem hefur kannski ekki komið nægilega vel fram,“ segir Katrín.

Skoða frekari efnahagsaðgerðir

Veitingamenn hafa kvartað undan því að lokunarstyrkir hafi ekki skilað þeim langt. Íhugar ríkisstjórnin frekari efnahagsaðgerðir?

„Ég held reyndar að þær efnahagsaðgerðir sem við réðumst í tímabundið hafi skilað gríðarlegum árangri. Hlutastarfaleiðin skilaði kannski veigamesta aðgerðin. Lokunarstyrkir og stuðningslán skipta líka máli. En við munum fara í það að greina hvort þörf sé á frekari aðgerðum.“


Tengdar fréttir

Kári vill loka landinu

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur vænlegast að loka landinu alveg til þess að hægt sé að ná utan um hópsmitið sem blossað hefur upp á undanförnum dögum. Hann segir ekki nóg að skimað sé á landamærum ef koma eigi í veg fyrir að veiran breiðist út hér innanlands.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.