Erlent

Tvö hundruð talin af eftir sprenginguna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þessi mynd er tekin í borginni í gær og sýnir vel eyðilegginguna sem varð við hafnarsvæðið þar sem sprengjan sprakk.
Þessi mynd er tekin í borginni í gær og sýnir vel eyðilegginguna sem varð við hafnarsvæðið þar sem sprengjan sprakk. Getty/Patrick Baz

Sífellt fleiri finnast látin í rústum Beirút eftir sprenginguna þar í liðinni viku. Þessa stundina eru rúmlega 200 talin af og tuga er enn saknað að sögn þarlendra ráðamanna.

Björgunarsveitir hafa unnið sleitulaust síðustu sólarhringa í þeirri von að finna fleiri á lífi í rústunum. Franskt björgunarlið gróf þannig samfleytt í tvo sólarhringa til að komast að niðurgröfnum klefa þar sem talið var að sjö kynnu enn að vera á lífi. Eftir 48 klukkustunda mokstur fundust fimm lík í rústunum.

Haft er eftir samhæfingarstjóra björgunaraðgerðanna á vef Guardian að fyrsta stigi aðgerðanna sé lokið. Björgunarsveitirnar séu af þeim sökum ekki lengur í „björgunarfasa“ og litlar líkur eru því taldar á að fleiri finnist á lífi.

Sem stendur er áætlað að um 6000 manns hafi særst í sprengingunni og að á fjórða hundrað þúsund hafi misst heimili sín eða hafist við í löskuðum byggingum. Þannig eru þúsundir íbúða ýmist glugga- eða hurðalausar eftir sprenginguna.

Þar að auki hafði hún margvísleg efnahagsleg áhrif, ekki síst á fæðuöryggi landsins og fyrir vikið hafa mannúðarsamtök kallað eftir því að líbönsku þjóðinni verði útveguð hjálpargögn hið snarasta. Þjóðarleiðtogar sammæltust um næstum 300 milljón dala neyðaraðstoð til Líbanons á starfrænum fundi þeirra í gær, sem haldinn var að frumkvæði Emmanuel Macron Frakklandsforseta.

Mikil pólitísk ólga er jafnframt í landinu eftir sprenginguna, sem talin er til marks um opinbera vanrækslu og sinnuleysi. Þannig hefur verið mótmælt í Beirút síðustu daga, sem afsagnar tveggja ráðherra og þriggja þingmanna hafa ekki náð að sefa.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.