Fótbolti

Heimir með Suá­rez í sigtinu

Sindri Sverrisson skrifar
Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. Vísir/Getty

Það er ekki bara David Beckham sem hefur hug á að fá Luis Suárez frá Barcelona því úrúgvæski markahrókurinn er nú orðaður við Al Arabi, liðið sem Heimir Hallgrímsson þjálfar í Katar.

Það er Mitch Freeley, fréttamaður beIN Sports í Katar, sem greinir frá áhuga Al Arabi. Hann segir ljóst að það sé þó langur vegur á milli þess að sýna áhuga og þess að fá leikmanninn, en bendir á að annað félag í Katar, Al-Duhail, hafi haft efni á króatíska framherjanum Mario Mandzukic.

Komi Suárez til Al Arabi gæti hann orðið liðsfélagi Arons Einars Gunnarsson. Samningur Arons við félagið gildir til 30. júní á næsta ári.

Suárez á sömuleiðis eitt ár eftir af samningi sínum við Barcelona en spænskir miðlar hafa þó greint frá því að spili hann að lágmarki 60% leikja á næstu leiktíð framlengist samningurinn sjálfkrafa um eitt ár.

Spænska blaðið Mundo Deportivo hefur greint frá því að hið nýja bandaríska félag Inter Miami, sem er að hluta í eigu Beckham, hafi þegar gert Suárez tilboð. Barcelona muni vilja losna við Suárez til að hafa efni á því að fá Lautaro Martinez frá hinu ítalska Inter liði.

Suárez, sem er 33 ára, skoraði 16 mörk í spænsku 1. deildinni í vetur á sinni sjöttu leiktíð með Barcelona eftir komuna frá Liverpool. Hann hefur skorað fjögur mörk í sex leikjum í Meistaradeildinni þar sem Barcelona mætir Bayern München í sannkölluðum stórleik á föstudagskvöld.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.