Innlent

Vísbendingar um að greiningum krabbameins hafi fækkað í Covid

Birgir Olgeirsson skrifar

Vísbendingar eru um að greiningum krabbameins hafi fækkað hér á landi í kórónuveirufaraldrinum. Framkvæmdastjóri krabbameinsfélagsins segir að mörgum sem greinst hafa með krabbamein í sumar svíði að hafa ekki komist í krabbameinsleit fyrr vegna sóttvarnaaðgerða.

Á Íslandi og í nágrannalöndunum eru óbein áhrif kórónuveirufaraldursins á þá sem veikjast af krabbameini nú skoðuð.

„Við sjáum þegar vísbendingar um að greiningum krabbameina hefur fækkað á þessu tímabili. Það getur verið alvarlegt mál því við vitum að því fyrr sem krabbamein greinist því betri eru líkurnar á lækningu,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Tvær ástæður eru fyrir því. Krabbameinsleitarmiðstöðin var lokuð hörðustu aðgerðunum í vetur og komur færri á heilsugæsluna.

„Það gæti bent til að fólk hafi veigrað sér við að leita á heilsugæsluna vegna einkenna sem svo gætu sýnt sig að eru krabbamein.“

Vegna sóttvarnaaðgerða hafa sjúklingar þurft að fara einir í gegnum krabbameinsmeðferðir.

„Það hefur kostað mikið tilfinningalega. Fólk hefur upplifað sig einangrað. Þetta hefur verið þyngra á margan hátt, bæði fyrir sjúklinga og aðstandendur.“

Halla segir að með því að fylgja sóttvarnareglum verndi fólk sig og aðra ekki aðeins fyrir veirunni heldur einnig þjónustu sem er lífsnauðsynleg öðrum.

„Af því að með því erum við að vinna með yfirvöldum að þurfa ekki að grípa til eins róttækra aðgerða og þurfti í vetur,“ segir Halla.

Hún segir marga sem greinst hafa í sumar svekkta með að hafa ekki komist í skimun í vetur vegna sóttvarnaaðgerða.

„Það eru auðvitað spurningar sem vakna hjá öllum. Það er mjög eðlilegt í svona tilvikum. Í einhverjum tilvikum getur það hafa skipt máli en væntanlega í flestum tilvikum hefur það ekki verið lykilatriði.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×