Innlent

Grípa þyrfti til frekari tak­markana ef kveða ætti far­aldurinn niður á þremur vikum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Birgir Olgeirsson skrifa
Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, sem fer fyrir teyminu við HÍ sem vinnur spálíkan um líklega þróun Covid-19 hér á Íslandi.
Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, sem fer fyrir teyminu við HÍ sem vinnur spálíkan um líklega þróun Covid-19 hér á Íslandi. Vísir

Ef kveða ætti seinni bylgju kórónuveirufaraldursins niður á þremur vikum hér á landi þyrfti að grípa til herts samkomubanns. Þetta segir prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands. Hver einstaklingur sem smitaður er af kórónuveirunni á Íslandi í dag smitar að jafnaði 2 - 3 til viðbótar eins og staðan er.

Thor Aspelund prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands segir tölur dagsins vera ákveðinn létti þó erfitt sé að draga stórar ályktanir út frá einum degi. Þrír greindust innanlands í gær og tveir á landamærum en tveir bíða eftir niðurstöðum úr mótefnamælingum þaðan.

„Svo horfa menn líka á að það eru helmingi færri innanlandssýni, gegn um spítalann og Íslenska erfðagreiningu, þannig að það hefur kannski einhver áhrif líka. Ég myndi nú halda að það sé eitthvað eftir inni, ekki kannski fjórtán en sjö, átta á dag næstu daga jafnvel.“

Hann segir Íslendinga vera á fimmtánda degi í annarri bylgju faraldursins og staðan virðist að einhverju leiti jákvæðari en á sama tíma í fyrri bylgju faraldursins. Thor segir smithlutfallið á svipuðum stað og í fyrri bylgjunni. Hver sýktur einstaklingur smiti því um tvo til viðbótar að jafnaði.

„Það fór alveg upp í rúmlega tvo þannig að þetta er frekar líkt og var í þriðju viku í mars síðast.“

Thor segir að teymið sem vinnur að spálíkani fyrir kórónuveirufaraldurinn geti jafnvel skilað af sér spá á föstudag.

„Myndin er orðin að einhverju leiti skýr á þriðjudag, myndi ég giska á núna, þá sjáum við alveg skýrt hvort þetta hefur beygt af vextinum miðað við síðast. Þá er ekkert óraunhæft að koma með spálíkan til dæmis á föstudaginn,“ segir Thor.

Ef allir færu eftir sóttvarnarreglum væri mögulegt að mati Thors að ná þessari seinni bylgju niður á jafnvel þremur vikum. „Þá myndum við geta náð henni niður bara á þremur vikum, ég myndi halda það, ef við færum öll í gírinn en þá þyrftum við líklega 20 manna bannið, samkomutakmörkunina, til að ná þessu alveg hart niður. Það er besta ágiskunin mín núna,“ segir Thor.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×