Fótbolti

Varane tekur tapið alfarið á sig

Ísak Hallmundarson skrifar
Varane í baráttunni við Gabriel Jesus í gær.
Varane í baráttunni við Gabriel Jesus í gær. getty/Ricardo Nogueira

Frakkinn Raphael Varane, varnarmaður Real Madrid, tekur tapið gegn Manchester City í Meistaradeildinni í gær á sig. Hann gerði tvívegis slæm varnarmistök sem leiddu til þess að City skoraði, í bæði skiptin eftir pressu frá Gabriel Jesus.

Varane, sem er heimsmeistari með Frakklandi og Spánarmeistari með Real Madrid, var auðmjúkur í viðtali eftir leik.

„Þessi ósigur er mér að kenna að öllu leyti. Ég verð að taka því. Mér líður illa fyrir hönd liðsfélaga minna sem lögðu allt í þetta. Þetta tap er á mína ábyrgð.“

„Við spiluðum vel og vorum vel undirbúnir fyrir leikinn, en mistök eru dýrkeypt á þessu sviði,“ sagði Varane.

Þetta er í annað sinn í röð sem Real Madrid dettur út í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar, en þeir geta huggað sig við að hafa unnið spænska titilinn eftir þriggja ára bið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×