Innlent

Orðalagið „kannski ekki alveg nógu heppilegt“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á upplýsingafundinum í dag.
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á upplýsingafundinum í dag. Lögreglan

Aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að orðalagið sem notað er í útlistun á tveggja metra reglunni í auglýsingu heilbrigðisráðuneytisins sé ef til vill ekki nógu heppilegt. Í auglýsingunni sem tók gildi 31. júlí síðastliðinn segir að tveggja metra regluna skuli tryggja „á milli einstaklinga sem ekki deila heimili“. Lögreglumenn sem fréttastofa hefur rætt við segja regluna nokkuð óskýra.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur heimsótt veitingahús og matsölustaði undanfarna daga til að tryggja að farið sé eftir auglýsingu heilbrigðisráðherra þar sem kveðið er á um tveggja metra reglu. Eins og reglan stendur núna kallar hún á að lögregla tryggi að allt fólk sem sé saman á almannafæri búi saman. 

Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn var inntur eftir því á upplýsingafundi almannavarna vegna veirunnar í dag hvort kæmi til greina að endurskoða orðalagið.

„Þetta er bindandi orðalag eins og þetta er. Þá er þetta beinlínis þannig að fólk þurfi að vera með lögheimili á sama stað, liggur við. En fólk sem er í sama sóttvarnarhólfi eða -kúlu - fjölskyldubönd eða vinnusambandsbönd eða svoleiðis, fólk sem er í mikilli nálægð dagsdaglega - það er ekki óeðlilegt að það fólk sé í meiri nálægð en ókunnugir. En þarna er sannarlega orðalagið kannski ekki alveg nógu heppilegt,“ svaraði Rögnvaldur.

Þá ítrekaði Alma Möller landlæknir að allar aðgerðir stjórnvalda í baráttunni gegn veirunni byggðu á trausti til almennings.

„Það er aldrei hægt að setja reglur um allt eða fylgja þeim eftir. Þannig að við sýnum fólki traust og treystum á að það sýni skynsemi,“ sagði Alma.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×