Enski boltinn

Eig­andinn sendi stuðnings­mönnum Liver­pool skila­boð: „Hafa verið til­finninga­rík tíu ár“

Anton Ingi Leifsson skrifar
John Henry faðmar Klopp eftir sigurinn á Real Madrid í fyrra.
John Henry faðmar Klopp eftir sigurinn á Real Madrid í fyrra. vísir/getty

Eigandi Liverpool, John Henry, segir síðustu tíu ára hafi verið ansi tilfinningarík en tíu ár eru síðan Fenway Sports Group keypti Liverpool.

Jurgen Klopp og lærisveinar hans tryggðu Liverpool fyrsta enska meistaratitilinn í þrjátíu ár á dögunum en Liverpool var lang besta liðið á Englandi þetta tímabilið.

Þetta er því eðlilega fyrsti enski meistaratitilinn sem Liverpool vinnur undir stjórn Henry og félaga en hann segir að síðustu ár hafi verið tilfinningarík.

„Þetta var löng fæðing. Að sjá Klopp sýna allar þessar tilfinningar gerði okkur öll mjög tilfinningarík. Þetta hafa verið tilfinningarík tíu ár,“ sagði Henry í myndbandinu.

„Liverpool FC er fjölskyldufélag og það er sérstakt að vera hluti af þessu félagi. Ég vil bara segja að þið, stuðningsmennirnir, hafið beðið lengi eftir þessu og við höfum þurft að fagna skynsamlega en þetta er eins og gjöf sem heldur áfram að gefa.“

„Á hverjum degi sem ég vakna þá er það á forsíðunni og baksíðunni að við unnum loksins á Englandi. Það er ósk mín að á hverjum degi sem þið farið á fætur, svo lengi sem það varir, að þið hugsið um það sem við höfum gert á Englandi, í Evrópu og verðið jafn stolt og ég er.“

„Staðreyndin er sú að við erum enskir meistarar, Evrópumeistarar, heimsmeistarar og unnu Ofurbikarinn. Það er sérstakur árangur hjá þessari stjórn og leikmönnunum.“

„Að vera hluti af þessi, að fá að taka þátt í þessu hefur verið það stærsta á mínum ferli og ég held að ég tali fyrir allra hjá Fenway Sports Group. Ég gæti talað lengi um Jurgen og hvernig hjarta hans er stærra en hans eigin frægð og hvernig eldmóður hans hefur jákvæð áhrif á okkur á hverjum degi.“

„En ég held að það sem er mikilvægt er að hann er staðráðinn á hverjum degi að gera rétta hluti og sama hvort það sé inn á vellinum eða eitthvað varðandi félagið. Hann er bara ákveðinn í að gera réttu hlutina og það skilar sér,“ sagði Henry.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×