Fótbolti

Forseti Barcelona segir ómögulegt að fjárfesta í Neymar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Við sjáum Neymar líklega ekki í treyju Barcelona á næstunni.
Við sjáum Neymar líklega ekki í treyju Barcelona á næstunni. EPA/ALEJANDRO GARCIA

Josep Maria Bartomeu – forseti spænska stórveldisins Barcelona – segir ómögulegt fyrir félagið að fjárfesta í brasilísku stórstjörnunni Neymar sökum kórónufaraldursins. Alls varð Barcelona af rúmlega 200 milljónum evra vegna faraldursins.

„Þetta hefur áhrif á öll stóru liðin í Evrópu og mun endast í örugglega þrjú til fjögur ár,“ sagði Bartomeu við spænska blaðið Sport.

Neymar varð dýrasti leikmaður sögunnar þegar Paris Saint-Germain eyddi litlum 222 milljónum evra í leikmanninn sumarið 2017. Það gera vel rúmlega 35 milljarða íslenskra króna. Börsungar reyndu svo að klófesta leikmanninn síðasta sumar en það gekk ekki eftir.

Nú virðist sem ekkert verði af því að Neymar snú aftur á Camp Nou. Börsungar hafa einfaldlega ekki efni á honum. Þá eru möguleg kaup liðsins á Lautaro Martinez – framherja Inter Milan á Ítalíu – einnig í hættu.

Bartomeu hefur verið forseti Barca frá árinu 2014 og er svartsýnn á komandi tímabil.

„Ef hlutirnir skána ekki þá verða engir áhorfendur, engar safnferðir, engar búðir opnar og við höldum áfram að tapa peningum. Það neyðir okkur til að vera mjög skynsöm og eyða aðeins í það sem við nauðsynlega þurfum,“ sagði forsetinn og átti þar við um leikmannakaup félagsins.

Það verður þó seint sagt að Börsungar hafi haldið þétt um budduna en þeir hafa eytt gífurlegum fjármunum undanfarin ár.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.