Innlent

Í lífs­hættu eftir að hafa smakkað ís­lenskan orku­drykk

Elísabet Inga Sigurðardóttir og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Brynja fékk alvarlegt ofnæmiskast eftir að hafa tekið sopa af drykknum.
Brynja fékk alvarlegt ofnæmiskast eftir að hafa tekið sopa af drykknum. Vísir/Aðsend

Kona með fiskiofnæmi var í lífshættu eftir að hafa innbyrt einn sopa af orkudrykk. Hún vill betri merkingar á ofnæmisvöldum í matvælum.

Brynja Guðmundsdóttir er með bráðaofnæmi fyrir fiski. Fyrir rúmum tveimur vikum var henni boðinn orkudrykkurinn Collab og eftir að hafa litið á texta framan á drykknum tók hún sopa. Fann hún strax að ekki var allt með felldu. Munnur og varir bólgnuðu upp, hún hneig niður og missti sjónina í um tuttugu mínútur en Brynja var í lífshættu vegna ofnæmisins.

„Áður en ég fékk mér sopann þá leit ég bara framan á dósina og sá að þetta var orkudrykkur. Ég hélt að það væri í góðu en það var ekki fyrr en eftir að ég tók sopann og fann að það var eitthvað að sem ég leit á innihaldslýsinguna og sá að það var fiskur í þessu,“ segir Brynja í samtali við fréttastofu.

Ofnæmi Brynju er alvarlegt og þarf hún því alltaf að vera mjög meðvituð um það sem hún innbyrðir. Hana óraði þó ekki fyrir því að það gæti verið fiskur í orkudrykk.

„Ég veit að það getur oft einhver matur innihaldið fisk en út af því að umbúðirnar eru þannig að mér finnst þær ekki skýrar. Þær eru villandi þegar ég horfi framan á þær,“ segir Brynja.

Samkvæmt leiðbeiningum MAST þurfa ofnæmisvaldar að koma fram með skýrum hætti á matvælum. Á umbúðum drykkjarins stendur að varan sé unnin úr fiski en Brynja vill að lengra sé gengið í merkingum fremst á drykknum.

Brynja telur að merkingum er lúta að ofnæmisvöldum í matvörum sé ábótavant.Vísir

„Mér finnst að það ætti að koma fram með stórum stöfum að þetta sé fiskikollagen eða kollagen sem er unnið úr fiskiroði.“

Á dögunum sendi Brynja Ölgerðinni og MAST erindi vegna þessa og vonast hún til að merkingum verði breytt.

„Ég var mjög hrædd um líf mitt. Ég hef fengið köst áður sem voru alvarleg en ekki eins alvarleg og þetta,“ segir Brynja.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×