Innlent

Hátíðleg en lágstemmd athöfn við innsetningu forseta Íslands

Heimir Már Pétursson skrifar

Guðni Th. Jóhannesson verður settur i embætti forseta Íslands öðru sinni við hátíðlega en lágstemmda athöfn sem hefst klukkan 15:30 í alþingishúsinu. Gestum við athöfnina hefur verið fækkað umfram það sem áður hafði verið ákveðið og verða aðeins 29 manns viðstaddir innsetninguna.

Um miðjan mánuðin hafði verið ákveðið að gestum yrði fækkað úr tæplega þrjú hundruð í áttatíu. En eftir að hert var á sóttvarnaaðgerðum í gær var gestum fækkað enn frekar.

Bryndís Hlöðversdóttir ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu hefur þurft að gera miklar breytingar á dagskrá innsetningar Guðna Th. Jóhannessonar í embætti forseta Íslands, nú síðast í gær.Stöð 2/Einar Árnason

Bryndís Hlöðversdóttir ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu hefur stjórnað undirbúningi embættistökunnar.

„Fyrirkomulagið verður þannig, fyrir utan að við þurftum að fækka boðsgestum verulega  í ljósi tveggja metra reglunnar sem hefur nú tekið gildi aftur,  að þá verður athöfninni ekki varpað á skjá út á Austurvöll eins og verið hefur. Forsetahjónin munu ekki stíga út á svalir þinghússins. Auk þess sem það verður ekki helgistund í Dómkirkjunni og ganga milli kirkju og þinghúss eiins og verið hefur. En biskup mun flytja sín blessunarorð inni í alþingishúsinu," segir Bryndís.

Forseti Alþingis, forseti Hæstaréttar og forsætisráðherra hafa farið með forsetavald frá miðnætti þegar fyrsta kjörtímabil Guðna rann út. Einungis þrír ráðherrar verða viðstaddir athöfnina í dag, forsætisráðherra, fjármálaráðherra og samgönguráðherra, það er að segja formenn stjórnarflokkanna.

Þá verða formenn stjórnarandstöðuflokkanna sömuleiðis viðstaddir ásamt Vigdísi Finnbogadóttur og Ólafi Ragnari Grímssyni fyrrverandi forsetum Íslands og Dorrit Moussaieff eiginkonu hans og nánasta fjölskylda forseta Íslands.

Forseta Íslands verður ekki óskað til hamingju að athöfn lokinni með handabandi vegna sóttvarna. Guðni hefur hætt við móttöku fyrir nánustu fjölskyldu og vini á Bessastöðum í dag vegna sóttvarnareglna sem kynntar voru í gær.

Athöfninni verður streymt beint á Vísi.


Tengdar fréttir

Mun færri verða við innsetningu forseta Íslands en áður

Mun færri verða viðstaddir innsetningu Guðna Th. Jóhannessonar í embætti forseta Íslands öðru sinni en venja er vegna kórónuveirufaraldursins. Þannig munu formenn flokkanna einir verða fulltrúar þingmanna við athöfnina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×