Innlent

Pósthúsinu á Selfossi lokað eftir að starfsmaður fór í sóttkví

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Selfossi.
Frá Selfossi. Vísir/Vilhelm

Pósthúsinu á Selfossi hefur verið lokað í dag. Um öryggisráðstöfun er að ræða eftir að starfsmaður pósthússins fékk símtal frá rakningarteymi ríkislögreglustjóra og var gert að fara í sóttkví. Búist er við því að starfsemi pósthússins verði með hefðbundnu sniði strax eftir helgi.

Birgir Jónsson, forstjóri Póstsins, segir engan séns vera tekinn. Allir hafi verið sendir heim og skimað verði eftir veirunni.

Hann segir að ráðstafanir verði gerðar til að keyra út þeim pósti sem hægt er í dag.

Ellefu ný smit greindust á milli daga og þar af hjá níu aðilum sem voru ekki í sóttkví. Víðir Reynisson hjá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að smituðum væri nú að fjölga að hluta til vegna þess að landsmenn hafi slegið slöku við í sóttvörnum.

Hertar aðgerðir vegna kórónuveirunnar tóku gildi á hádegi í dag. Þeirra á meðal er að fjöldatakmörk verða lækkuð úr 500 manns niður í 100 manns. Tveggja metra reglan tekur aftur gildi og er því ekki lengur valkvæð. Þá verða breytingar á landamærunum.

Þetta kom fram í máli heilbrigðisráðherra á blaðamannafundi í gær. Reglurnar byggja á tillögum landlæknis sem ráðherra segist hafa samþykkt. Þær gilda næstu tvær vikurnar hið minnsta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×