Innlent

Spítalainnlögn vegna Covid-19

Stefán Ó. Jónsson og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild
Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Vísir/Vilhelm

Einstaklingur hefur verið lagður inn á Landspítalann vegna kórónuveirusýkingar. Þetta er fyrsta innlögnin á sjúkrahús vegna Covid-19 síðan í maí. Ríkisútvarpið greindi frá þessu fyrst en Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild, staðfestir þetta við fréttastofu.

Farsóttarnefnd og viðbragðsstjórn Landspítala ákváðu í gær að grípa til aðgerða á spítalanum vegna þess hversu hratt smituðum af kórónuveirunni hefur fjölgað síðustu daga. Nýja reglurnar tóku gildi á miðnætti en vegna innlagnarinnar er þessi vænst að viðbúnaðarstig á spítalanum verði hækkað yfir á hættustig.

Í samtali við fréttastofu segir Már að tilefni hafi þótt til að leggja einstaklinginn inn en kvaðst ekki geta tjáð sig frekar um ástand viðkomandi. Innlögnin sé táknræn að mati Más og til marks um að „það séu meiri veikindi út í samfélaginu heldur en við höfum getað staðfest.“

Már segir þá að gera verði ráð fyrir því að fleiri séu smitaðir í samfélaginu, og því mögulegt að fleiri innlagnir muni fylgja í kjölfarið. Viðbragðsstjórn spítalans mun koma saman klukkan 12 í dag. Eftir þann fund gerir Már ráð fyrir því að spítalinn verði formlega settur á hættustig.

„Ef maður gerir þessar reikningskúnstir aftur á bak miðað við það sem var hérna í vor, þá má gera ráð fyrir því að það séu fleiri einstaklingar þarna úti. Þá ræðst þetta svolítið á næstu dögum, hvað er að gerast,“ segir Már.

Hann segir spítalinn sé þegar kominn í stellingar og haldi vel utan um alla tölfræði er varðar innlagnir á Covid-göngudeild og annað slíkt.

„Þannig getur maður áttað sig á umfanginu og viðbragðið helgast svolítið af því.“

Síðasti smitaði einstaklingurinn var útskrifaður af Landspítalanum þann 13. maí síðastliðinn. Þegar mest lét voru 44 inniliggjandi á sama tíma í byrjun apríl.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×