Innlent

Bene­dikt víkur úr máli eftir útskriftarveislu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Benedikt Bogason, hæstaréttardómari.
Benedikt Bogason, hæstaréttardómari. mynd/ valgarður

Benedikt Bogason hæstaréttardómari hefur vikið úr máli þrotabús EK1923 gegn Sjöstjörnunni sem flutt verður fyrir Hæstarétti í október. Þetta staðfestir Heiðar Ásberg Atlason, lögmaður Sjöstjörnunnar, í samtali við Vísi en tilkynning þess efnis barst í morgun. Heiðar hafði krafist þess að Benedikt viki úr málinu eftir að sá síðarnefndi sótti útskriftarveislu dætra Sveins Andra Sveinssonar, skiptastjóra þrotabús EK1923.

Sjöstjarnan, félag athafnamannsins Skúla Gunnars Sigfússonar, hafði í héraði verið dæmd til að greiða þrotabúinu 223 milljóna króna riftun annars vegar og 21 milljón hins vegar auk vaxta sem Sveinn hafði farið fram á.

Landsréttur taldi hins vegar að greiða ætti lægri upphæðina og kyrrsetning á eignum sem höfðu tengst hærri upphæðinni hafði einnig verið felld út. Sveinn Andri áfrýjaði málinu til Hæstaréttar og samþykkti Hæstiréttur málskotsbeiðnina.

Heiðar Ásberg, lögmaður Sjöstjörnunnar, sendi forseta Hæstaréttar bréf í síðustu viku þar sem þess var krafist að hæfi Benedikts Bogasonar yrði metið í málinu en hann væri góðvinur Sveins Andra og því ekki í stöðu til að dæma í málinu. Vísaði hann þá til þess að Benedikt hefði nýlega sótt útskriftarveislur tveggja dætra Sveins Andra, sem mbl.is greindi frá.

„Ég vil ekki að vinir andstæðinga minna dæmi í málinu þeirra. Það segir sig sjálft,“ segir Heiðar. Ekki liggur fyrir hver taki við málinu en nýlega sögðu Gréta Baldvinsdóttir og Þorgeir Erlingsson af sér en þau voru dómarar í Hæstarétti. Umsóknarfrestur í stöðu dómara rann út í gær og munu því þrír taka dómarasæti í málinu í haust.

„Svo kom tilkynning í morgun um að þau og Benedikt væru ekki lengur í málinu þannig að við vitum bara að Sigurður Tómas og Ingveldur eru en við vitum ekki hverjir koma í staðin fyrir hin,“ segir Heiðar.

„Ég hef vitað það lengi að þeir væru félagar en það að hann kæmi í útskriftarveislu barnanna var eitthvað sem ég vissi ekki fyrr en bara eftir á. Þú býður ekki einhverjum kunningjum þínum í útskriftarveislu barnanna þinna, þú býður bestu vinum þínum. Þess vegna krafðist ég þess að hann myndi víkja úr sæti sem hann gerði.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×