Fyrirhuguðum tilslökunum á samkomubanni sem taka áttu gildi 4. ágúst næstkomandi verður frestað um tvær vikur. Þetta staðfestir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í samtali við fréttastofu.
Fjöldamörk samkomubanns munu þannig áfram miðast við 500 manns til 18. ágúst, auk þess sem skemmtistaðir verða áfram opnir til 23. Til stóð að fjöldamörk yrðu hækkuð í 1.000 og afgreiðslutími skemmtistaða lengdur til miðnættis strax eftir verslunarmannahelgi.
Bíða með breytingar í ljósi innanlandssmita
Ríkisstjórnin tók fyrir áætlaðar breytingar á fjöldatakmörkunum og afgreiðslutíma skemmtistaða vegna kórónuveirunnar á fundi sínum í morgun. Heilbrigðisráðherra segir í samtali við fréttastofu nú að loknum fundi að hún hafi fengið nýtt minnisblað frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni í gær. Hún hafði áður fallist á tillögur hans er sneru að tilslökunum á samkomubanni 4. ágúst.
„En í ljósi stöðunnar sem við erum að sjá þessa dagana, bæði í gær og í fyrradag, þá leggur hann til við mig að við bíðum með þessar tilslakanir í tvær vikur. Það er að segja, þá breytingu annars vegar að fjölga úr fimm hundruð í þúsund með hámarksfjölda á einum stað og hins vegar þetta með að lengja opnunartíma veitingahúsa frá ellefu til miðnættis. Þannig að það verður bið á þeirri breytingu í ljósi þess að við þurfum að ná betur utan um stöðuna.“
Innt eftir því hvort til skoðunar sé að grípa til hertari aðgerða í ljósi innanlandssmitanna sem greinst hafa hér á landi síðustu daga segir Svandís að nú sé allt til skoðunar.
„Það standa yfir fundir þar sem verið er að skoða þessi mál og samspilið við skimun á landamærum. Ég legg megináherslu á það í dag að við þurfum að herða verulega á því sem við öll kunnum svo vel, sem eru okkar einstaklingsbundnu smitvarnir.“
Þá þurfi einnig að skoða hvort setja eigi aukinn kraft í skimun fyrir veirunni innanlands. „Við þurfum að hreyfa okkur hratt hér eftir sem hingað til,“ segir Svandís.
Fréttin hefur verið uppfærð.