Innlent

Sam­komu­bann miðast við þúsund eftir verslunar­manna­helgi

Sylvía Hall skrifar
Opnunartími skemmti- og vínveitingastaða verður lengdur til miðnættis.
Opnunartími skemmti- og vínveitingastaða verður lengdur til miðnættis. Vísir/Vilhelm

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur samþykkt tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis að framlengja núgildandi samkomubann fram yfir verslunarmannahelgi. Því munu fjöldatakmörk áfram miðast við 500 manns en hækka í þúsund þann 4. ágúst næstkomandi.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins en Þórólfur greindi frá minnisblaðinu á upplýsingafundi í gær. 

Með rýmkun samkomubanns verður opnunartími skemmti- og vínveitingastaða lengdur til miðnættis. Í minnisblaði sóttvarnalæknis segir að þetta sé tímabært í ljósi þess að opnun landamæra hefur ekki leitt til aukningar á innanlandssmitum og að skimanir séu komnar í gott horf.

Á upplýsingafundi í gær sagði Þórólfur að nú þyrfti að breyta viðbrögðum við kórónuveirufaraldrinum úr neyðarstjórnun í daglegt verkefni. Ljóst væri að heimsbyggðin þyrfti að lifa með honum næstu mánuðina eða jafnvel árin.

Í minnisblaðinu kemur fram að rúmlega 50 þúsund ferðamenn hafi komið hingað til lands eftir að skimanir hófust þann 15. júní og um 30 þúsund sýni hafi verið tekin. Aðeins fjórtán virk smit hafi fundist og ellefu innanlandssmit greinst í kjölfarið. Engin önnur innanlandssmit hafi greinst.

Framlenging á núverandi auglýsingu verður birt á næstu dögum í stjórnartíðindum ásamt nýrri auglýsingu með breyttum reglum sem taka gildi þann 4. ágúst.


Tengdar fréttir

Opið til miðnættis strax eftir verslunarmannahelgi

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sent heilbrigðisráðherra minnisblað þar sem lagt er til að afgreiðslutími vínveitinga- og skemmtistaða verði lengdur til miðnættis þriðjudaginn 4. ágúst.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×