Innlent

Í athugun hvort grípa þurfi til hertari aðgerða

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir er sérfræðingur á sóttvarnarsviði embættis landlæknis.
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir er sérfræðingur á sóttvarnarsviði embættis landlæknis. ARNAR HALLDÓRSSON

Tuttugu og einn er með staðfest kórónuveirusmit hér á landi og 173 eru í sóttkví. Í athugun er hvort grípa þurfi til hertari aðgerða. Af þeim tuttugu og einum sem er smitaður eru tíu innanlandssmit.

„Þar af eru sjö sem tengjast hópsýkingu sem var staðfest i gær. Nú í dag kom í ljós út frá raðgreiningarupplýsingum að sennilega tengjast þessi smit á einhvern hátt smitunum sem komu upp og voru kennd við íþróttamót,“ segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, sérfræðingur á sóttvarnarsviði embættis landlæknis í samtali við fréttastofu. Verið sé að skoða hver möguleg tengsl smitaðra séu.

Ellefu af málunum tuttugu og einu eru aðskilin og í tveimur þeirra hefur uppruni smits ekki fengist staðfestur. Þeir einstaklingar sem eru með staðfest smit hafa sýnt einkenni sjúkdómsins sem veiran veldur en enginn er á sjúkrahúsi vegna þessa. 173 eru í sóttkví vegna þessa og enginn þeirra með einkenni enn sem stendur.

Þarf að grípa til hertari aðgerða?

„Það er enn bara allt í athugun,“ segir Kamilla. „Fyrst og fremst er ástæða til að vera vel vakandi fyrir því hverjir þurfa að fara i sýnatöku og gefa út skýrar línur með það. Slíkt er á dagskrá og verður rætt við heilsugæsluna og aðra aðila sem málið varðar.“ Of snemmt sé að segja til um hvort önnur bylgja faraldursins sé hafin.

Einn hinna smituðu er með erlent ríkisfang og kom hingað til lands vegna starfs síns. Kamilla biðlar til vinnuveitenda sem eru með erlent vinnuafl í starfi að vera vakandi fyrir einkennum.

„Það er mjög mikilvægt að þakka fyrir það að vinnuveitendur séu meðvitaðir um það að ef þeir eru með stóran hóp af erlendu vinnuafli að biðja um og ýta á að það séu tekin sýni ef það koma upp veikindi sem gætu verið vegna kórónuveirunnar,“ segir Kamilla.


Tengdar fréttir

Sex ný smit greindust innanlands

Sex ný innanlandssmit kórónuveirunnar hafa greinst hér á landi í kvöld. Smitin tengjast öll einstaklingi sem kom til landsins 15. júlí síðastliðinn



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×