Innlent

21 með virkt kórónuveirusmit hér á landi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Kórónuveiran á bráðamótökunni í Fossvogi
Kórónuveiran á bráðamótökunni í Fossvogi

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis funduðu í morgun vegna þeirra kórónuveirusmita sem greinst hafa hér á landi frá 8. júlí. Í dag eru í heildina 21 með staðfest smit veirunnar sem veldur sjúkdómnum Covid-19.

Að sögn Jóhanns K. Jóhannssonar, samskiptastjóra Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, er um að ræða tíu innanlandssmit og af þeim séu sjö tengd. Það eru smit hjá sex einstaklingum sem greint var frá í gærkvöldi og þeim sjöunda sem greint var frá á laugardag.

„Þegar búið er að tilkynna þrjá daga í röð um smit þá finnst fólki það óþægilegt og þá er eðlilegt að setjast niður og taka saman stöðuna,“ segir Jóhann.

Hann segir það einstaklega mikilvægt nú að fólk hugi að einstaklingsbundnum smitvörnum. „Þetta er krítískur tími.“

Um ellefu aðskilin mál er að ræða og 173 eru í sóttkví vegna smitanna. Í tveimur þessara tilfella hefur uppruni smits ekki verið staðfestur en Íslensk erfðagreining hefur raðgreint sýni til þess að finna uppruna smitanna.

Þeir einstaklingar sem eru með staðfest smit hafa sýnt einkenni veirunnar en enginn er alvarlega veikur og enginn hefur lagst inn á sjúkrahús. Í tilkynningu frá almannavörnum segir að áríðandi sé að þeir sem fari í sýnatöku haldi sig heima þar til neikvæð niðurstaða hafi borist.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×