Fótbolti

Keflavík kom sér á toppinn - Magni fékk sitt fyrsta stig eftir dramatík

Sindri Sverrisson skrifar
Kian Williams skoraði glæsilegt mark fyrir Keflavík í dag.
Kian Williams skoraði glæsilegt mark fyrir Keflavík í dag. mynd/@sannirkeflvikingar

Keflavík kom sér á toppinn í Lengjudeild karla í fótbolta, um tíma að minnsta kosti, þegar liðið vann 4-1 sigur gegn Vestra í dag. Magni og Grindavík gerðu 3-3 jafntefli í fjörugum leik.

Kian Williams kom Keflavík yfir með draumamarki á 5. mínútu í Reykjanesbæ í dag, en Milos Ivankovic jafnaði metin fyrir gestina á 56. mínútu. Strax í kjölfarið komu tvö mörk á tveimur mínútum hjá Keflavík, frá Joey Gibbs og Williams, og Gibbs bætti svo við sínu öðru marki á 71. mínútu til að innsigla sigurinn.

Keflavík er með 17 stig, stigi meira en Leiknir R. og tveimur stigum meira en ÍBV en þau lið eiga leik til góða. Vestri er með 11 stig í 7. sæti.

Magni náði í sitt fyrsta stig með dramatískum hætti gegn Grindavík. Grindvíkingar komust í 2-0 með mörkum Josip Zeba og Guðmundar Magnússonar, en Gauti Gautason og Hjörtur Heimisson jöfnuðu metin fyrir Magna um miðjan seinni hálfleik. Hermann Björnsson virtist hafa tryggt Grindavík sigur undir lok leiks en Magni náði að jafna metin seint í uppbótartíma þegar Rúnar Þór Brynjarsson skoraði.

Magni er enn í neðsta sæti, fimm stigum frá öruggu sæti, en Grindavík er með 11 stig í 6. sæti.

Upplýsingar um markaskorara eru frá Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×