Innlent

Breytingin geri fleirum kleift að hefja háskólanám í haust

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Menntamálaráðherra hefur hækkað frítekjumark námsmanna sem koma af vinnumarkaði til að hefja háskólanám á næsta skólaári. Um einskiptis aðgerð er að ræða en ráðherra útilokar ekki að hækkunin festist í sessi.

Heimilað hefur verið að fimmfalda frítekjumark þeirra sem taka námslán hjá Menntasjóði námsmanna fyrir skólaárið 2020-2021 vegna sérstakra aðstæðna í þjóðfélaginu. Heimildin tekur til þeirra sem koma af atvinnumarkaði og hafa ekki verið í námi síðastliðna sex mánuði.

„Þetta gerir auðvitað fleirum kleift að hefja nám í haust. Þetta er ein af þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin er að grípa til til þess að koma til móts við samfélagið á þessum tímum kórónuveirunnar,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Áður var heimilt að þrefalda frítekjumarkið fyrir þennan hóp. Breytingin tekur einungis til næsta skólaárs.

„Þetta er einskiptis aðgerð en það er auðvitað svo að það eru miklir óvissutímar og við viljum auðvitað gera eins mikið og við getum til þess að draga úr þeirri óvissu þannig þetta ásamt öðru verður auðvitað í stöðugri endurskoðun,“ sagði Lilja.

Stúdentaráð Háskóla Íslands og Landsambands stúdenta fagna breytingunni en hefðu viljað að hún væri varnaleg. Ráðherra segir ekki útilokað að svo verði.

„Við útilokum ekkert á þessum tímapunkti. Við vitum auðvitað að það er mikil óvissa og það er stjórnavalda að reyna að draga eins mikið úr þeirri óvissu til að mynda með því að gera fleirum kleift að hefja nám í haust,“ sagði Lilja.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×