Fótbolti

Sara skoraði í þriðja leiknum í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sara Björk hefur skorað í öllum þremur leikjunum sem hún hefur spilað með Lyon.
Sara Björk hefur skorað í öllum þremur leikjunum sem hún hefur spilað með Lyon. vísir/vilhelm

Það er engum ofsögum sagt að Sara Björk Gunnarsdóttir hafi farið vel af stað með Frakklands- og Evrópumeisturum Lyon.

Landsliðsfyrirliðinn hefur leikið þrjá leiki með Lyon á undirbúningstímabilinu og skorað í þeim öllum.

Sara skoraði eitt mark í stórsigri Lyon á Gornik Leczna, 9-0, í Póllandi í dag og lagði upp annað. Í fyrradag skoraði hún eitt mark í 4-1 sigri á Czarni Sosnowiec og á laugardaginn gerði hún eitt marka franska liðsins í 5-0 sigri á Medyk Konin.

Sara kom inn á sem varamaður fyrir Saki Kumagi í hálfleik í leiknum í dag. Á 58. mínútu lagði hún upp mark fyrir ensku landsliðskonuna Lucy Bronze sem kom Lyon í 7-0.

Melvine Malard kom Lyon í 8-0 á 63. mínútu og ellefu mínútum síðar skoraði Sara níunda markið.

Nikita Parris skoraði þrennu fyrir Lyon í leiknum í dag, Eugénie Le Sommer skoraði tvö mörk og Sara, Malard, Bronze og Amandine Henry sitt markið hver.

Lyon á enn eftir að klára tímabilið 2019-20 vegna kórónuveirufaraldursins. Fyrsti keppnisleikur liðsins eftir nokkurra mánaða hlé verður sunnudaginn 2. ágúst. Lyon sækir þá Guingamp heim í undanúrslitum frönsku bikarkeppninnar. Úrslitaleikurinn fer svo fram 9. ágúst.

Þann 22. ágúst mætir Lyon svo Bayern München í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Þrátt fyrir að hafa leikið með Wolfsburg í Meistaradeildinni á þessu tímabili má Sara spila með Lyon í átta liða úrslitum keppninnar og á seinni stigum hennar ef liðið kemst áfram.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.