Innlent

Ísland taki þátt í bóluefnisverkefni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þórólfur Guðnason greindi frá verkefninu á fundi dagsins.
Þórólfur Guðnason greindi frá verkefninu á fundi dagsins. Vísir/vilhelm

Íslensk stjórnvöld eru áhugasöm um að taka þátt í alþjóðlegu verkefni Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um bóluefni við kórónuveirunni. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. Með því að lýsa áhuga á þátttöku í verkefninu, sem heitir COVAX, munu Íslendingar tryggja sér bóluefni þegar þar að kemur að sögn Þórólfs.

Hann sagði ljóst að margir bóluefnaframleiðendur vinni nú að því að þróa og framleiða bóluefni gegn Covid-19. Það hafi vantað samhæfingu í þessa vinnu og þess vegna hafi WHO sett af stað umrætt verkefni. Ætlun þess sé að styðja við rannsóknir og framleiðslu á bóluefni, sem og að skapa samhæfingu um dreifingu á bóluefni þegar það er tilbúið. Það muni tryggja réttláta dreifingu milli landa.

Níu framleiðendur hafa verið valdir til að taka þátt í þessu verkefni að sögn Þórólfs, þar af séu sex þegar með bóluefni í framleiðslu. Áttatíu ríki hafi í dag lýst yfir áhuga á þátttöku, þar af öll Norðurlöndin.

Reiknað sé með að hver einstaklingur þurfi tvær bólusetningar og hver skammtur mun kosta um 35 dali. Því gæti það kostað um 700 milljónir að bólusetja 20 prósent af íslensku þjóðinni. Þórólfur tók þó fram að líklega verði ekki almennt framboð af bóluefni fyrr en á næsta ári.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×