Erlent

Verð­launa­fé sett til höfuðs for­seta hæsta­réttar Venesúela

Andri Eysteinsson skrifar
Forseti Hæstaréttar Venesúela segir tilraunir Bandaríkjanna til að grafa undan sér vera klaufalegar.
Forseti Hæstaréttar Venesúela segir tilraunir Bandaríkjanna til að grafa undan sér vera klaufalegar. Getty/Pedro Mattey

Bandaríkjastjórn hefur sett fimm milljóna dala verðlaunafé til höfuðs hátt settum embættismanni í Venesúela. Getur hver sá sem veitir upplýsingar sem leiðir til handtöku og sakfellingar forseta hæstaréttar Venesúela, Maikel Moreno, gert tilkall til verðlaunanna.

Hinn fimmtíu og fjögurra ára gamli Moreno hefur gegnt embætti forseta hæstaréttar Venesúela frá því í febrúar 2017 og saka Bandaríkjamenn hann um þátttöku í skipulagðri glæpastarfsemi. Moreno hefur neitað þeim ásökunum staðfastlega.

Bandaríkjastjórn, sem ekki viðurkennir tilkall Nicolas Maduro til forsetaembættis Venesúela, hefur áður sett fé til höfuðs hátt settra embættismanna í suður-ameríkuríkinu. Til að mynda setti stjórnin fimmtán milljóna dala verðlaunafé til höfuðs Maduro sjálfum í mars.

BBC greinir frá því að Moreno sé sakaður um að hafa þegið mútur í skiptum fyrir það að beita sér fyrir því að mál verði felld niður og ákærðir menn fái að ganga lausir.

Fyrr á árinu var hann kærður fyrir peningaþvætti í Flórída-ríki Bandaríkjanna.

Moreno gefur lítið fyrir ásakanirnar og segir Bandaríkjastjórn ljúga. „Þetta er ekki í fyrsta skipti sem málpípur norður-ameríska keisaradæmisins ráðast að mér með klaufalegum hætti. Full af blekkingum og lygum,“ sagði Moreno.

Bandaríkjamenn segja Nicolas Maduro ekki réttmætan forseta Venesúela.vísir/epa

„Ásakanir sem þessi, byggðar á sandi, gera ekkert nema að styrkja mig á þeirri vegferð að tryggja aðgengi allra að réttlátri málsmeðferð og réttlæti.“

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að með þessu séu Bandaríkjamenn að senda skýr skilaboð en þó er ólíklegt að þessi ákvörðun Bandaríkjanna muni hafa í för með sé miklar breytingar á lífi Moreno.

Ólíklegt þykir að Moreno muni lenda í nokkrum vandræðum í heimalandinu en hann gæti verið handtekinn ef hann yfirgefur landið. Þegar hefur honum og eiginkonu hans verið bannað að ferðast til Bandaríkjanna.

Bandaríkjastjórn, eins og áður segir, viðurkennir ekki tilkall Maduro til forsetaembættisins og styður þess í stað Juan Guaidó leiðtoga stjórnarandstöðunnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.