Erlent

Navalní segist þurfa að leggja niður sjóð gegn spillingu

Kjartan Kjartansson skrifar
Navalní við höfuðstöðvar FBK-sjóðsins þegar lögregla gerði húsleit þar í desember.
Navalní við höfuðstöðvar FBK-sjóðsins þegar lögregla gerði húsleit þar í desember. Vísir/EPA

Háar sektir sem dómstólar hafa lagt á er ástæða þess að Alexei Navalní, einn af leiðtogum rússnesku stjórnarandstöðunnar, segist þurfa að leggja niður sjóð gegn spillingu sem hann stýrir. Sjóðurinn hefur sérhæft sig í að birta rannsóknir á spillingu í opinbera geiranum.

Rússnesk yfirvöld hafa ítrekað gert húsleitir á skrifstofu FBK-sjóðsins, fryst bankareikninga hans og starfsmenn og sjálfboðaliðar eru reglulega handteknir á mótmælum. Navalní segir að síðasta hálmstráið hafi verið 88 milljóna rúblna, jafnvirði um 173 milljóna króna, sekt sem sjóðurinn var dæmdur til að greiða nýlega.

Viðfangsefni spillingarrannsókna sjóðsins hafa stundum leitað til dómstóla vegna umfjöllunar og haft sigur, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Kostnaðurinn hefur sligað sjóðinn svo að Navalní segir að nú þurfi hann að leggja hann formlega niður.

„Það hefur þegar verið lagt hald á allt sem við áttum í fyrri lögreglurassíum. Núna ætla þeir að hafa með sér stofnunina sjálfa,“ segir Navalní.

Mögulegt er að sambærilegur sjóður verði stofnaður undir nýju nafni og kennitölu. Hvatti Navalní stuðningsmenn sjóðsins til að gerast áskrifendur að þeim nýja.

Navalní ætlaði að bjóða sig fram til forseta gegn Vladímír Pútín árið 2018 en dómstólar bönnuðum honum það vegna fjársvikamála sem hann segir að eigi sér pólitískar rætur.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×