Innlent

„Bjóðum ömmu og afa í ferðalag“ um uppsveitir Árnessýslu

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Gunnar Kristinn Gunnarsson verkefnisstjóra Heilsueflandi uppsveita
Gunnar Kristinn Gunnarsson verkefnisstjóra Heilsueflandi uppsveita Magnús Hlynur Hreiðarsson.

„Bjóðum ömmu og afa í ferðalag“, er heiti á nýju verkefni, sem sveitarfélögin í uppsveitum Árnessýslu eru að byrja með þar sem ömmu og afa er boðið í ferð með fjölskyldu sinni um uppsveitirnar með viðkomum á nokkrum völdum stöðum.

Heilsueflandi uppsveitir er samstarfsverkefni sveitarfélaganna í uppsveitum Árnessýslu þar sem tilgangurinn er að stuðla að heilsu og vellíðan íbúa og gesta á svæðinu. Sögugöngur um Flúðir og Reykholt hafa til dæmis slegið í gegn í sumar þar sem starfsemi fyrirtækja á svæðunum er kynnt og saga þorpanna sögð. Þá hafa íþróttahús sveitarfélaganna verið nýtt undir allskonar hreyfingu, t.d. mættu 160 börn og unglingar nýlega á fjögurra daga körfuboltabúðir á Flúðum. Sveitarfélögin sem standa að „Heilsueflandi uppsveitum“ eru Bláskógabyggð, Hrunamannahreppur, Grímsnes og Grafningshreppur og Skeiða og Gnúpverjahreppur.

Sögugöngur um Flúðir hafa líka slegið í gegnum í sumar en þar er Árni Þór Hilmarsson göngustjóri.Magnús Hlynur Hreiðarsson.

„Við byrjuðum á því að reyna að fá breiðfylkingu í sveitarfélögunum, við erum t.d. með þarfagreiningu núna í gangi fyrir Grímsnes og Grafningshrepp og Skeiða og Gnúpverjahrepp og svo leitum við til félagasamtakanna um að taka þátt í að skapa saman þetta heilsueflandi samfélag. Það er æðislegt að fá að stýra svona verkefni og kynnast kraftinum sem er til staðar og taka þátt í að byggja upp eitthvað,“ segir Gunnar Kristinn Gunnarsson, verkefnisstjóra Heilsueflandi uppsveita

Gunnar segist vera mjög ánægður með hvað sögugöngurnar í Reykholti og Flúðum hafa tekist vel.

„Í Reykholti er til dæmis „Sælkerarölt um Reykholt“, mjög spennandi og flott framtak hjá fyrirtækjunum, þar sem þau hafa tekið sig saman og eru með kynningar á því, sem er í gangi þar í sinni framleiðslu og eins hér á Flúðum, það eru fyrirtæki sem eru búin að taka sig saman og eru með viðburðadagskrá.

Sælgeragöngur um Reykholt hafa slegið í gegn þar sem gestir göngunnar fá að fræðast um þorpið og heimsækja nokkur fyrirtæki. Göngustjóri er Herdís Friðriksdóttir. Gengið er alla föstudaga klukkan 11:00 og tekur gangan tæplega tvær klukkustundir.Magnús Hlynur Hreiðarsson.

Gunnar segist vera með eitt mjög spennandi verkefni í gangi, sem fer vonandi fljótlega af stað.

„Já, vinnuheitið á því er „Bjóðum ömmu og afa í ferðalag“ þar sem við leitum til fyrirtækja að gefa afslátt og annað þar sem við getum boðið upp á að fjölskyldan geti farið með ömmu og afa í ferðalag um uppsveitirnar: Þannig að við skorum á fólk, þó það fari ekki til útlanda í ár, að bjóða ömmu og afa í ferðalag um uppsveitirnar,“ segir Gunnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.