Fótbolti

Leipzig á meiri möguleika að vinna Meistaradeildina en Liverpool banarnir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Simeone, stjóri Atletico Madrid  í leik Liverpool og Atletico Madrid á Anfield í Liverpool í mars.
Diego Simeone, stjóri Atletico Madrid  í leik Liverpool og Atletico Madrid á Anfield í Liverpool í mars. EPA-EFE/PETER POWELL

Manchester City er sigurstranglegasta liðið í Meistaradeildinni af þeim sem eru enn á lífi í keppninni sem hefst á ný í næsta mánuði.

Bestu lið Evrópu hafa einbeitt sér að því að klára deildarkeppnir sínar í júní og júlí en nú er farið að styttast í því að þau geti farið að einbeita sér að Meistaradeildinni.

Lokakafli Meistaradeildarinnar fer fram með allt öðrum hætti en áður því hún verður nú kláruð á tíu dögum í ágúst og fara allir leikirnir fram í borginni Lissabon í Portúgal.

Það á reyndar eftir að klára fjóra seinni leiki í sextán liða úrslitunum en svo tekur við eins leiks útsláttarkeppni eins og HM eða EM.

Það var dregið út alla keppnina í síðustu viku og það hjálpaði mönnum að gera sér grein fyrir möguleikum hvers liðs fyrir sig.

Tölfræðingarnir á fivethirtyeight.com hafa nú reiknað út sigurlíkur allra liðann sem eru eftir í Meistaradeildinni.

Manchester City er ekki komið áfram í átta liða úrslitin en það eru samt 29 prósent líkur á því að þeir vinni úrslitaleikinn í Meistaradeildinni og 41 prósent líkur á því að þeir komist þangað.

Manchester City vann 2-1 útisigur á Real Madrid í fyrri leik þeirra í sextán liða úrslitunum en liðin mætast aftur á Ethiad leikvanginum í Manchester 7. ágúst næstkomandi.

Næstmestar líkur eru á því að Bayern München vinni eða 23 prósent og franska liðið Paris Saint Germain er síðan í þriðja sætið með 15 prósent líkur. PSG sleppur við Manchester City, Real Madrid, Juventus, Barcelona og Bayern München á mögulegri leið sinni í úrslitaleikinn.

RB Leipzig mætir Liverpool bönunum í Atlético Madrid í átta liða úrslitunum og það eru meiri líkur á því að þýska liðið verði Evrópumeistari (8%) en að liðið sem sló út Evrópu-, heims- og Englandsmeistara Liverpool. Það munar reyndar bara einu prósenti.

Minnstar líkur á sigri í Meistaradeildinni eru þrjú lið sem eiga líka eftir að spila seinni leikinn sinn í sextán liða úrslitunum en það eru Lyon, Napoli og Chelsea. Chelsea tapaði 3-0 á heimavelli á móti Bayern München í fyrri leiknum og á nánast enga möguleika á því að komast áfram.

Napoli náði hins vegar jafntefli á móti Barcelona og Lyon vann Juventus. Það breytir því þó ekki að bæði þessi lið eru með undir 1 prósent líkur á að þau fari alla leið í keppninni.

Sigurlíkur liðanna sem eru eftir í Meistaradeildinni:

 • Manchester City 29%
 • Bayern München 23%
 • Paris Saint Germain 15%
 • Barcelona 9%
 • RB Leipzig 8%
 • Atlético Madrid 7%
 • Atalanta 5%
 • Real Madrid 2%
 • Juventus 2%
 • Lyon <1%
 • Napoli <1%
 • Chelsea <1%


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.