Fótbolti

Sif Atla lýsir sænska boltanum á Stöð 2 Sport á afmælisdaginn sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sif Atladóttir í leik með íslenska landsliðinu en hún hefur spilað 82 landsleiki.
Sif Atladóttir í leik með íslenska landsliðinu en hún hefur spilað 82 landsleiki. Vísir/Bára

Sif Atladóttir þekkir vel til sænsku kvennadeildarinnar í fótbolta eftir að hafa spilað þar í næstum því heilan áratug. Áhorfendur Stöð 2 Sport munu njóta góðs af innsýn hennar og þekkingu í kvöld.

Stöð 2 Sport er að sýna beint frá sænsku kvennadeildinni í fyrsta sinn í sumar og í dag verður sýnt beint frá leik Uppsala og Umeå. Anna Rakel Pétursdóttir spilar með liði Uppsala.

Íslenski landsliðsmiðvörðurinn Sif Atladóttir heldur upp á 35 ára afmælið sitt í dag en hún er í barneignarfríi og stödd heima á Íslandi. Sif spilar með sænska félaginu Kristianstad en missir af þessu tímabili.

Sif Atladóttir hefur spilað í sænsku deildinni frá árinu 2011 og leikið yfir 150 leiki í deildinni en fáir þekkja deildina því betur. Hún ætlar að lýsa leiknum í dag.

Kristín Ýr Bjarnadóttir, sem lýsir leiknum á Stöð 2 Sport í dag, fékk gamla liðsfélaga sinn úr Val til að lýsa leiknum með sér.

Sif Atladóttir og Kristín Ýr Bjarnadóttir urðu tvisvar sinnum saman Íslandsmeistarar með Val en Sif varð alls þrisvar sinnum Íslandsmeistari með Valsliðinu.

Leikur Uppsala og Umeå hefst klukkan 17.00 en útsending á Stöð 2 Sport hefst fimm mínútum fyrr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×