Erlent

Helstu andstæðingum Lúkasjenkó meinað að bjóða sig fram

Andri Eysteinsson skrifar
Frá mótmælum sem efnt var til eftir að Babaríkó var handtekinn.
Frá mótmælum sem efnt var til eftir að Babaríkó var handtekinn. Getty/NurPhoto

Mótmæli hafa brotist út í hvítrússnesku höfuðborginni Mínsk eftir að helstu andstæðingum sitjandi forseta var meinað að bjóða sig fram í forsetakosningum ársins.

Kjörstjórn í Hvíta-Rússlandi hefur hafnað framboðum helstu andstæðinga Alexanders Lúkasjenkó forseta en forsetakosningar eru áætlaðar í næsta mánuði.

Þeir Valerí Tsjepkaló og Viktor Babaríkó höfðu hug á því að binda endi á tuttugu og sex ára valdatíð Alexanders Lúkasjenkó sem verður að öllu líkindum endurkjörinn í embættið sem hann hefur gegnt frá árinu 1994.

Eftir að niðurstaða kjörstjórnar var tilkynnt brutust út mótmæli víða um Hvíta-Rússland sem fóru að mestu friðsamlega fram. Þrjátíu og fimm mótmælendur voru þó handteknir í Mínsk en einnig var mótmælt í Grodno, Gomel og í Brest.

Framboði Tsjepkaló, sem er fyrrum sendiherra Hvíta-Rússlands í Bandaríkjunum var hafnað eftir að hann náði ekki að safna tilskyldum fjölda undirskrifta en Babaríkó var meinað að taka þátt vegna sakamáls sem höfðað hefur verið á hendur honum.

Babaríkó var handtekinn í júní grunaður um peningaþvætti en forseti Evrópuráðsins, Ursula von der Leyen hefur sagst telja að Babaríkó hafi verið handtekinn af undirlagi yfirvalda.

Kosningarnar verða haldnar 9. ágúst og eru alls fimm í framboði.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.