Innlent

Bruninn á Þingvöllum reiðarslag fyrir þjóðina

Jakob Bjarnar skrifar
Mynd sem sjá mátti á forsíðu Tímans fljótlega í kjölfar  hins voveiflega atburðar.
Mynd sem sjá mátti á forsíðu Tímans fljótlega í kjölfar  hins voveiflega atburðar. skjáskot/timarit.is

Í dag er þess minnst að 50 ár eru liðin frá því að forsætisráðherrahjónin og barnabarn þeirra fórust í eldsvoða í sumarbústað þeirra á Þingvöllum.

„Dr. Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, frú Sigríður Björnsdóttir, kona hans, og Benedikt Vilmundarson, fjögurra ára, fórust í fyrrinótt, þegar ráðherrabústaðurinn á Þingvöllum brann til kaldra kola. Fréttin um þetta hörmulega slys kom sem reiðarslag yfir íslensku þjóðina og stjórnmálamenn á Norðurlöndum hafa lýst hryggð sinni vegna þessa atburðar.“ Litli drengurinn var sonur Valgerðar Bjarnadóttur og Vilmundar Gylfasonar eiginmanns hennar.

Þjóðarsorg var lýst yfir og óhætt að segja að þjóðin öll, hvar í flokki sem menn stóðu, var sleginn harmi vegna þessa atburðar.

Svo segir á forsíðu Tímans 11. júlí 1970. Í yfirfyrirsögn segir: „Enn ókunnugt um eldsupptök í ráðherrabústaðnum á Þingvöllum“.

Óhugnanleg sjón blasti við

Inni í blaðinu er fjallað ítarlega um hinn hörmulega atburð. Þar segir meðal annars að Kristján Eldjárn forseti Íslands hafi fallist á tillögu ríkisstjórnarinnar um að fela Jóhanni Hafstein, ráðherra, að gegna stöðu forsætisráðherra fyrst um sinn. 

Blaðamaður greinir frá ferð fréttamanna Tímans yfir Mosfellsheiði. Dökk var yfir og skýjað. Snjóföl hafði verið á veginum um nóttina sem enn mátti greina utan vegar.

Fjölmiðlar fjölluðu ítarlega um brunann. En hér má sjá forsíðu Tímans þar sem greint er frá brunanum.skjáskot timarit.is

„Er komið var/á veginn heim að Valhöll, blasti óhugnanleg sjón við, þar sem voru rústir sumarhúss forsætisráðherrans, og skorsteinninn skagaði nakinn upp í loftið. 

Reyk lagði upp af rústunum, og bárujárnið, sem klætt hafði bústaðinn að utan, var allt sunnan við bústaðinn, og þar hafði jörðin sviðnað. 

Í grunni bústaðarins var salli og einn og einn hlutur úr járni kolsvartur og úr lagði genginn eftir hitann í brunanum. Baðkerið, ísskápurinn, þvottavélin, rúmgrindur og fleiri hlutir úr járni lágu hér og hvar í rústunum skakkir og skældir og hálf bráðnaðir sumir hverjir.“

Fræði- og framkvæmdamaður í senn

Um Bjarna segir á sérstakri vefsíðu sem helguð er minningu hans:

„Bjarni Benediktsson var í fremstu röð stjórnmálaforingja Íslendinga á 20. öld. Hann ólst upp í Reykjavík á öðrum áratug 19. aldar og lærði mikið af foreldrum sínum sem voru mikils metin í íslensku samfélagi. Faðir hans Benedikt Sveinsson var alþingismaður og bókavörður og hefur án efa verið þess valdandi að Bjarni hefur haldið sérstaklega vel utan um öll sín gögn síðan hann var í barnaskóla, og erum við þakklát því í dag. Móðir hans var Guðrún Pétursdóttir en var hún kvenskörungur mikill og lét sig mikið varða jafnræði og kvenréttindi sem var ekki á allra máli á þessum tíma.

Dr. Bjarni Benediktsson var góðum gáfum gæddur. Hann var stúd­ent liðlega 18 ára gam­all og ein­ung­is 22 ára lauk hann lög­fræðiprófi með hæstu ein­kunn við Há­skóla Íslands.

Bjarni var í senn fræðimaður, framkvæmdamaður og stjórnmálamaður. Hann útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík aðeins 18 ára og fór þá beint að nema lögfræði. 24 ára varð hann prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands, síðar borgarfulltrúi og borgarstjóri, sat á þingi og gegndi mörgum ráðherraembættum og var varaformaður og formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann lést sviplega á hátindi ferils síns.“

Greind­ur, íhug­ull og al­vöru­gef­inn

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins ritar grein sem birtist meðal annars á vefsíðu flokksins. Þar segir Bjarni um nafna sinn og forvera:

„Á Þing­völl­um stend­ur steinn sem reist­ur var í minn­ingu þeirra þriggja sem lét­ust svo vo­veif­lega fyr­ir fimm­tíu árum. Þar verður þeirra minnst við at­höfn í dag. En bauta­steinn dr. Bjarna Bene­dikts­son­ar er miklu stærri og hann mun standa jafn­lengi og Ísland er byggt. Sá bauta­steinn er lýðveldið okk­ar, byggt á lög­um og rétti; lýðveldi frjálsr­ar og full­valda þjóðar, sem ekki hik­ar við að skipa sér í fylk­ingu vest­ræns lýðræðis og vill verja, varðveita og byggja upp það sem okk­ur kom í arf og ber að skila til kom­andi kyn­slóða.“

Í grein sinni rekur Bjarni feril Bjarna Benediktssonar, hann hafi fæðst hinn 30. apríl 1908 í Reykja­vík, son­ur hjón­anna Bene­dikts Sveins­son­ar þing­for­seta og Guðrún­ar Pét­urs­dótt­ur frá Eng­ey, al­inn upp á stóru og fjör­legu menn­ing­ar­heim­ili við Skóla­vörðustíg­inn.

„Hann var ein­stak­lega góðum gáf­um gædd­ur; greind­ur, íhug­ull og al­vöru­gef­inn. Hann varð stúd­ent liðlega 18 ára gam­all og ein­ung­is 22 ára lauk hann lög­fræðiprófi með hæstu ein­kunn við Há­skóla Íslands. 

Eft­ir fram­halds­nám í stjórn­laga­fræði, aðallega í Berlín, varð hann pró­fess­or í lög­um við Há­skóla Íslands árið 1930, aðeins 24 ára að aldri og þótti skjótt fremsti stjórn­laga­fræðing­ur þjóðar­inn­ar, snjall og af­kasta­mik­ill fræðimaður. Hann gegndi því starfi til hausts 1940, þegar hann varð borg­ar­stjóri. Árið 1947 var hann skipaður ut­an­rík­is- og dóms­málaráðherra og lét þá af borg­ar­stjóra­störf­um,“ skrifar Bjarni vorra tíma.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ritar grein um alnafna sinn en tilefnið er að nú er hálf öld frá hinum skelfilega atburði, brunanum á Þingvöllum.visir/vilhelm

Dr. Bjarni Benediktsson átti síðan sæti í rík­is­stjórn til æviloka, lengst allra ís­lenskra ráðherra, fyr­ir utan tíma­bilið frá 1956 til 1959, en þá var hann rit­stjóri Morg­un­blaðsins meðfram þing­störf­um og rak ein­hverja hörðustu stjórn­ar­and­stöðu lýðveld­is­sög­unn­ar, að sögn formanns Sjálfstæðisflokksins.

Hann varð fyrst for­sæt­is­ráðherra í Viðreisnarstjórninni svo kölluðu (1959 – 1971) árið 1961 í forföll­um Ólafs Thors og síðan frá 1963 til dauðadags.

Gerðist kirkjurækinn í kjölfar fráfalls eiginkonu

Þá segir formaður Sjálfstæðisflokksins frá því að Bjarni hafi kvænst Val­gerði Tóm­as­dótt­ur 26 ára gam­all, en hún lést úr fóst­ur­eitrun inn­an við hálfu ári síðar. „Hann syrgði hana mjög og sótti sér styrk í krist­inni trú og varð mjög kirkjuræk­inn upp frá því. Síðar gekk hann að eiga Sig­ríði Björns­dótt­ur og varð þeim fjög­urra barna auðið; Björns, Guðrún­ar, Val­gerðar og Önnu.“

Bjarni segir alnafna sinn og forvera í starfi hafa upplifað mikla um­brota­tíma í starfi, hann hafi verið borg­ar­stjóri í her­nám­inu og staðið fyr­ir ein­um mestu framfaraframkvæmd­um í sögu lands­ins með hita­veit­unni í Reykja­vík.

„Hann lét sig þjóðmál­in þó ekki minna máli skipta og ég full­yrði að eng­inn Íslend­ing­ur hafi þá verið dug­legri bar­áttumaður fyr­ir því að Ísland ætti og yrði að verða lýðveldi, líkt og sam­bands­sátt­mál­inn frá 1918 heim­ilaði. Það náði ekki ein­vörðungu til hinn­ar laga­legu hliðar, sem þó var hon­um sér­stak­lega hug­leik­in, held­ur einnig til efna­hags­legs styrks og menn­ing­ar­legr­ar reisn­ar, stjórn­mála­legs stöðug­leika, mann­legr­ar fjöl­breytni og frels­is hvers og eins, sem hann vissi að landi og þjóð væru nauðsyn­leg til þess að öðlast sjálf­stæði og varðveita það.“

Hin umdeilda ákvörðun um inngöngu í NATO

Að sögn formanns Sjálfstæðisflokksins blasti við nýtt ríki að lokinni síðari heimstyrjöld og að Bjarni Benediktsson hafi aldrei efaðist um að þar yrðu Íslend­ing­ar að skipa sér í sveit með vest­ræn­um lýðræðis­ríkj­um.

Ráðuneyti Bjarna Benediktssonar 1963-1970. Frá vinstri: Jóhann Hafstein, Gunnar Thoroddsen, Bjarni Benediktsson, Birgir Thorlacius ríkisráðsritari, Ásgeir Ásgeirsson forseti, Guðmundur Í. Guðmundsson, Emil Jónsson, Gylfi Þ. Gíslason og Magnús Jónsson.Skjáskot af minningarsíðu um Dr. Bjarna Benediktsson

„Hann beitti sér fyr­ir þeirri erfiðu og um­deildu ákvörðun að Íslend­ing­ar skyldu ganga í Atlants­hafs­banda­lagið og þá var sjálfsagt harðast að hon­um sótt. Bjarni lét eng­an bil­bug á sér finna, sótti fram af þeirri rök­festu og þunga, sem hon­um var í blóð bor­in, og hafði sig­ur. Bæði á Alþingi og í þeim kosn­ing­um, sem á eft­ir fylgdu.“

Dr. Bjarni Benediktsson stóð þannig fyrir afar umdeildum málum og til þess má ef til vill rekja viðvarandi sögusagnir um að ekki hafi allt verið sem sýndist varðandi brunann. En rannsóknir leiddu aldrei í ljós hvað hafði orsakað hann.

Samsæriskenningar um brunann

Fjölmargar kenningar hafa verið viðraðar í gegnum tíðina um hvað gæti hafa búið að baki brunanum. Til dæmis var greint frá því fljótlega eftir brunann að tveir menn hefðu sést á Þingvöllum þessa nótt sem aldrei tókst að hafa uppá. Mánudagsblaðið fjallaði um brunann tíu árum eftir að atburðinn (05.02.1979) en þar eru viðraðar samsæriskenningar; að bruninn hafi ef til vill verið af mannavöldum?

Frá yfirstandandi minningarathöfn á Þingvöllum. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.visir/Berghildur

„Hér var ekki um venjulegan mann, heldur afar umdeildan þjóðarleiðtoga að ræða, mann sem stóð í pólitískum stórvirkjum og var jafnframt leiðtogi annarrar fylkingarinnar í umdeildu hitamáli, sem varðaði alla þjóðina. […]Þess gengur enginn dulinn að dr. Bjarni, sem og aðrir meiriháttar framámenn, urðu fyrir allskyns hótunum og aðkasti,“ segir í Mánudagsblaðinu. Og áfram:

„Nóttina sem bruninn varð á Þingvöllum var veður hvasst og ákaflega ósumarlegt. Að venju var mannmargt á Valhöll, því hestamannamót var í Skógarhólum, auk venjulegra ferðamanna. 

Flestir voru gegnir til náða þegar eldurinn gaus upp. Var hann með þeim fádæmum, að á skammri stundu varð húsið alelda og brann allt sem brunnið gat. 

Slökkviðliðið úr Reykjavík gat ekkert aðhafst enda ekki von …“

Hinn dularfulli válegi atburður

Þá víkur höfundur greinar að einstökum efnisatriðum í sambandi við þennan bruna:

 „Presturinn á Þingvöllum hafði um nóttina gengið að bústað ráðherra og var þá allt eðlilegt. Tuttugu mínútum síðar kom hann að embættisbústað sínum, Þingvallabænum, var þá litið að bústað ráðherra og sá þá að hann stóð í björtu báli. Á bókstaflega engri stundu brann forsætisráðherra Íslands inni ásamt konu og barnabarni. Á rétt um viku var búið að þurrka burt öll ummerki brunans, tyrfa yfir rústirnar og reisa minnisvarða um þennan válega atburð.“

Ýmis atriði eru týnd til sem mega heita grunsamleg. En hvað sem því líður hefur aldrei neitt komið fram sem varpar ljósi á tildrög brunans sem var, sem fyrr segir, reiðarslag fyrir þjóðina.

Nú hefst sérstök minningarathöfn um þennan atburð sem sannarlega skók þjóðina. Vísir sendir beint frá athöfninni.


Tengdar fréttir

Bein út­sending: Minningar­at­höfn um brunann á Þing­völlum

Minningarathöfn verður haldin á Þingvöllum í dag til minnast þess að hálf öld er liðin frá því að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra Íslands, Sigríður Björnsdóttir eiginkona hans og fjögurra ára dóttursonur þeirra fórust í eldsvoða í ráðherrabústaðnum.

Hálf öld frá brunanum á Þingvöllum

Minningarathöfn verður haldin á Þingvöllum í dag til minnast þess að hálf öld er liðin frá brunanum sem var mikið reiðarslag fyrir þjóðina. Forsætisráðherrahjónin, ásamt dóttursyni þeirra, höfðu farið 9. júlí 1970 í ráðherrabústaðinn á Þingvöllum til að dvelja þar yfir nótt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×