Innlent

Ríkið býst við reikningi fyrir skimuninni frá Íslenskri erfðagreiningu

Kjartan Kjartansson skrifar
Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu.
Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu. Vísir

Forsætisráðuneytið hefur rætt við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, um að hann sendi reikning fyrir skimun fyrir kórónuveirunni. Mögulegt er að kostnaður við greiningu sýna sem eru tekin á Keflavíkurflugvelli aukist þegar Landspítalinn tekur við skimuninni af fyrirtækinu.

Kári tilkynnti í byrjun vikunnar að Íslensk erfðagreining ætlaði að hætta aðkomu sinni að skimun fyrir kórónuveirunni. Fyrirtækið hætti að afgreiða sýni sem því eru send eftir mánudaginn 13. júlí. Íslensk erfðagreining hóf skimun fyrir kórónuveirunni þegar faraldurinn hóf að sækja í sig veðrið á vormánuðum og þá hefur fyrirtækið aðstoðað við skimun á landamærum þegar hún hófst í júní.

Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, sagði að talað hefði verið um við Kára að hann sendi ríkinu reikning fyrir skimuninni.

„Hann er ekki búinn að því en það er alveg gert ráð fyrir að svo verði,“ sagði Páll í viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Vangaveltur eru um að kostnaður við landamæraskimunina aukist þegar Landspítalinn tekur alfarið við henni. Páll segir að Íslensk erfðagreining búi yfir öflugri og sjálfvirkari búnaði til þess að greina sýni en Landspítalinn hafi yfir að ráða. Greiningarvinnan á spítalanum verði mannaflafrekari.

Þá sagði Páll að tölvukerfi Landspítalans utan um móttöku sýna sé ekki hannað fyrir skimun á landamærunum. Kári hafi hins vegar boðist til þess að veita spítalanum aðgang að tölvukerfi Íslenskrar erfðagreiningar.

Skimun á Keflavíkurflugvelli er takmörkuð við 2.000 farþega á dag. Páll sagði að fljótlega kunni að reyna á að flugfélög breyti flugáætlunum sínum og það kunni að verða hitamál á næstunni.


Tengdar fréttir

Tíu sýna-aðferðin næstbesti kosturinn

Alma Möller, landlæknir, er bjartsýn á að veirufræðideildin ráði við umfang skimana á landamærunum með því að keyra tíu sýni saman í einu. Hún segir aðferðina þó vera næstbesta kostinn því þegar tíu sýni séu prófuð samtímis minnki næmi prófana, samanborið við þá aðferð sem Íslensk erfðagreining hefur viðhaft á landamærunum sem hverfist um að prófa hvert og eitt sýni.

Kári fór á fund Katrínar í morgun

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar kom á fund Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í Stjórnarráðinu skömmu fyrir klukkan ellefu í morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×